19.12.1934
Neðri deild: 64. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2647 í B-deild Alþingistíðinda. (3575)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég hefi flutt við þetta frv. eina brtt., sem er á þskj. 389, vegna þess að í 1. gr. frv. síðustu málsgr. er sem ákveðið, að ákvæði þeirrar gr. nái ekki til ráðh., alþm. og annara opinberra fulltrúa, sem kosnir eru almennri kosningu. Með þessu hefir höfundur frv. viljað láta í ljós þá skoðun, að þeir, sem eiga embætti sitt undir kjörfylgi, skuli ekki láta af því vegna aldurs. nema því aðeins, að sá aðili, sem veitti þeim kjörgengi, óski eftir því, og þá náttúrlega á þann hátt, sem slíkir aðilar eiga kost á því. Ég tel þetta rétta hugsun, sem þarna kemur fram í síðustu málsgr. l. gr. frv., en þeir, sem viðurkenna, að sú hugsun sé rétt, hljóta líka að geta aðhyllzt mína brtt., sem er á þá leið, að ef embættismaður, sem hlotið hefir embætti sitt með almennri kosningu, fer frá samkv. ákvæðum þessara l., þá skuli honum heimilt að sækja um embættið af nýju. Og hljóti hann kosningu, þá skuli hann fá veitingu fyrir embættinu um 3 ára skeið. — Með þessu eru slíkir embættismenn gerðir jafnréttháir til embættis eins og höfundur frv. hefir gert ráðh. og alþm. og þá opinberu fulltrúa, sem kosnir eru almennri kosningu. Mér finnst það rökrétt afleiðing af þeirri hugsun, sem höfundur frv. hefir viljað láta í ljós með ákvæðum 1. gr., að mín brtt. verði samþ. Það getur að vísu orkað tvímælis, hversu langan tíma slíkur embættismaður ætti að öðlast embætti sitt aftur eftir að hann hefði hlotið nýja kosningu. Ég hefi ákveðið 5 ár í minni brtt., en ég mundi geta gengið inn á 4 ár og jafnvel 3 ár, ef mönnum þætti það eðlilegra. Mér finnst það ekki skipta miklu máli, ef menn bara vilja viðurkenna þá hugsun, sem felst í brtt., því hún styðst fullkomlega við þann tilgang höfundar frv., sem kemur fram í 3. málsgr. 1. gr., en hún er auk þess studd af þeirri staðreynd, að með þessum hætti gefst kjósendum tækifæri til þess að dæma um það sjálfir, hvort embættismaður, sem kosinn er með almennri kosningu, vegna aldurs eða einhvers annars fullnægir ekki lengur þeim kröfum, sem þeir gera til hans. Þetta eitt út af fyrir sig tel ég nægilegt til þess, að þessi till. ætti að ná samþykki allra. Það verða náttúrlega allir að viðurkenna, að um leið og það er rétt, að löggjöfin setji vissar tryggingar gegn því, að menn hafist lengur við í embættum sínum en þeir fyrir aldurs sakir eru færir til, þá er það kostur, ef hægt er að bjóða upp á fyrirmæli, sem rúma í sér þann möguleika, að embættismaður, sem er starfhæfur, enda þótt hann hafi náð settu aldursmarki, geti haldið áfram starfi sínu. Þetta þykist ég gera með þessari till. minni, sem náttúrlega eins og l. eru nú fyrst og fremst nær til prestastéttarinnar. Ég þykist ekki þurfa að færa önnur eða fleiri rök fyrir því, að þessi till. á, ef réttlætið ræður, að öðlast fylgi þd.

Um málið almennt ætla ég ekki að ræða, því sá málstaður, sem ég aðhyllist, hefir rækilega verið rökstuddur af flokksbræðrum mínum hér í d., og ég sé ekki ástæðu til að fara að færa fram sömu rökin og þeir. Af því leiðir náttúrlega það, að ég er andvígur því, að frv. verði samþ. Ég mun greiða atkv. með þeim brtt., sem flokksbræður mínir hafa flutt hér fram og gert grein fyrir, en ég mun svo greiða atkv. gegn frv. Það er engum vafa undirorpið, að ef þetta mál væri ekki sótt með ofurkappi, þá væri mjög auðvelt að setja löggjöf um þetta efni á næsta þingi, sem þeir aðilar, sem hlut eiga að máli, gætu betur unað við heldur en fyrirmæli þessa frv., sem hér liggur fyrir. Og þar sem engin rök hafa verið færð fyrir því, að það sé þjóðarnauðsyn að lögfesta fyrirmæli frv. einmitt núna, þá sýnist mér allt of mikið ofurkapp vera lagt í þessar málsóknir. — Ég mun því af þessum ástæðum og með tilvísun til þeirra raka, sem flokksbræður mínir hafa fært fram, greiða atkv. með þeirra brtt. og vitaskuld minni brtt., en gegn sjálfu frv.