19.12.1934
Neðri deild: 64. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2649 í B-deild Alþingistíðinda. (3576)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Það hefir verið deilt um þetta mál hér í d., og þau andmæli, sem komið hafa fram gegn frv., eru næstum því eingöngu þau sömu og komið hafa fram í hv. Ed. Það eru líka að miklu leyti þær sömu ástæður færðar gegn frv. núna eins og við 1. umr. málsins hér í d. Ég sé því ekki ástæðu til að endurtaka til prentunar í þingtíðindunum sömu ræðurnar aftur og aftur um þetta mál. Deilunni, sem risið hefir um það, hvort embættismenn ættu að hafa embætti sín æfilangt, hefi ég svarað í hv. Ed., og get því vísað til þess, sem ég sagði þar. Hvað viðvíkur eftirlaununum, þá fá þessir embættismenn vitanlega eftirlaun samkv. launalögunum, en það, sem hér er um að ræða, er það, hvað mikil þeirra eftirlaun verða umfram það, sem ákveðið er í launalögunum. Ég vil því ekki lengja mikið umr. með því að karpa um það sama. Þjóðin verður sjálf að skera úr því á sínum tíma, hvor stefnan sé heppilegri, að ungir menn taki við störfum eða að gamlir menn séu látnir sitja við störf, þó þeim sé farið að förlast frá því, sem er um menn á bezta aldri. Um þessar tvær stefnur skal ég ekki deila frekar, en ég skal taka það fram í þessu sambandi, að ég mæli með því, að till. hv. 2. þm. Reykv. verði samþ. Ég hélt því fram í hv. Ed., að l. mundu alltaf verða framkvæmd á þann veg, sem nú er gert ráð fyrir í þessari brtt., og til þess að sýna, að ég hefi alltaf ætlað mér að framkvæma l. þannig, þá vil ég mælast til þess, að þessi brtt. verði samþykkt.

Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða um þetta mál til þess að karpa um einstök atriði.