19.12.1934
Neðri deild: 64. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2485 í B-deild Alþingistíðinda. (3760)

69. mál, eftirlit með sjóðum

Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég þarf ekki að svara hv. 6. þm. Reykv. mörgum orðum, en ég vil benda honum á það, að það er algerður misskilningur hjá honum, að í 3. gr. felist það, sem borið er fram í viðaukatill. minni, og er það einmitt höfuðgalli frv., að fjmrh. hefir ekkert vald yfir sjóðunum. Þess vegna kemur það eins og skollinn úr sauðarleggnum í 3. gr., þegar talað er um, að fjmrh. skuli gert aðvart, er misfellur finnast á meðferð sjóðanna, og síðan eigi hann að gera ráðstafanir til þess að lagfæra það, sem aflaga fer. En fjmrh. er hvergi í frv. gefið neitt vald eða nein heimild til þess að skerast í þau mál. Hér er því um fullkominn misskilning að ræða hjá hv. þm. (GÞ: Hver hefir þá umráð yfir sjóðunum?). Það eru langoftast skipulagsskrár sjóðanna, sem kveða á um það.

Um það frumlega tal hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. G.-K. um afstöðu mína til dagskrártill. hv. 2. þm. Reykv. skal ég ekki ræða. Þeir halda því fram, að ég hafi skipt um skoðun við það, að foringi minn hafi borið fram þessa dagskrá. Ég skal í því tilefni taka það fram, að ég skrifaði undir nál. með fyrirvara, og í sambandi við þann fyrirvara flutti ég brtt., sem umsteyptu frv., og var fyrirvari minn miðaður við það, að brtt. yrðu samþ. En þetta mistókst. Af því leiðir það, að ég tel mér rétt að greiða atkv. með hinni rökst. dagskrá.

Ég ætla, að hv. þm. skilji þetta, þó hann vilji ekki skilja það og sjái ástæðu til að færa þetta út á annan veg heldur en rétt er. Og ég vildi þá mega spyrja hv. þm., í hverju er fólginn fyrirvari um undirskrift nál., ef ekki í því, að maður áskilji sér rétt til breyt. Og ef manni er ekki sama um, hvernig þeim brtt. reiðir af, getur svo farið, að maður sjái ekki ástæðu til að vera með framgangi málsins. Í fyrirvaranum felst sú forsenda, að maður fylgi málinu, ef þær breyt. komast fram, sem maður telur nauðsynlegar. Þetta er svo auðskilið mál, að ég ætla, að báðir þessir hv. þm. skilji það, þó þeir vilji ekki svo vera láta.