11.12.1934
Neðri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2705 í B-deild Alþingistíðinda. (3823)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Það kom mér satt að segja dálítið á óvart, að hæstv. forseti tók þetta mál á dagskrá nú. Ég átti tal við hæstv. forseta og spurði hann, hvort það mundi tekið fyrir á þessari nóttu, af því ég þurfti að víkja mér dálítið frá, þó það yrði ekki eins lengi og gat orðið, og lét hann þá svo ummælt, að hann mundi ekki gera það, því nóg væri af öðrum málum á dagskrá, sem hann mundi e. t. v. taka fyrir, og gæti hann því gengið framhjá þessu máli. Ég skal ennfremur bæta því við, að mér þykir það lítil nærgætni af hæstv. forseta gagnvart hv. 6. landsk., sem á brtt. í málinu, en er fyrir nokkru farinn úr húsinu og sennilega genginn til náða. (Forseti (JörB): Mér er ekki kunnugt um það). Ég vildi því skjóta því til hæstv. forseta, hvort hann sæi sér ekki fært að fresta þessu máli. Að því er snertir brtt. hv. 6. landsk. hafa orðið einhver mistök á um hana, því hún fellur alls ekki inn í frv. eins og er.

Skilst mér, að nauðsynlegt sé, að honum sé gefinn kostur á að leiðrétta till., því að öðrum kosti er ekki hægt að samþ. hana.

Ég vil bæta því við, að mér þætti ástæða til að tala um mínar brtt. yfir fleiri mönnum en nú eru viðstaddir. Þær snerta mjög afstöðu okkar Sunnlendinga, og þætti mér gott að fá tækifæri til að tala máli sanngirninnar í viðurvist fleiri dm., því það gæti haft áhrif eða þýðingu um hvaða afdrif brtt. mínar fá hér í hv. d. Með tilliti til þessara ástæðna vildi ég ítreka vinsamlegast, að hæstv. forseti léti frekari umr. niður falla nú í nótt um þetta mál. Skal ég svo doka við og bíða eftir svari hæstv. forseta.