20.12.1934
Sameinað þing: 26. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

1. mál, fjárlög 1935

Bjarni Bjarnason:

Það, sem veldur því, að ég hefi ekki beitt mér fyrir þessu máli í fjvn., er fyrst og fremst það, að íþróttafélögin hér í bænum hafa ekki enn getað komið sér saman um, í hvaða íþróttum skuli keppt á mótinu. Af þessu leiðir, að enginn sérstakur undirbúningur með tilliti til mótsins er enn hafinn, og ætti það þó að vera fyrsta krafan, sem gerð er til Í. S. Í., að það byrji að æfa íþróttamennina í tíma. En allir sjá, hvílík fjarstæða það er að vera ekki búinn að ákveða íþróttirnar, sem taka skal þátt i, þegar aðeins er eitt vor og sumar eftir til undirbúnings.

En auk þessa vil ég gera grein fyrir öðru í sambandi við þetta mál. Þegar um það er að ræða að senda íþróttamenn á Ólympíuleikana. getur verið um tvennt að velja: að senda þá til keppni, eða sýninga án keppni. Ég hefi þegar sýnt fram á það, að undirbúningstíminn til keppni er allt of stuttur. Eigi okkur að vera fært að taka þátt í slíkri keppni með skammlausum árangri, verða íþróttafélögin að halda uppi stöðugum æfingum milli móta. Við eigum engan sérstaklega glæsilegan íþróttamann um þessar mundir og stöndum öðrum þjóðum svo langt að baki í öllum metum, að sæmilegur árangur í keppni má teljast vonlaus, þótt ekki sé gert ráð fyrir neinum sigurvinningum. Við getum ekki nú gert okkur vonir um slíkan árangur í neinni íþrótt, að við komumst þar í úrslitaflokka (sem er mjög sæmilegur árangur), eins og Sigurjón Pétursson komst á sínum tíma. Í einmenningsíþróttunum hefir að vísu verið talað um einn spretthlaupara og einn sundmann, sem tekið gætu þátt í keppni með sómasamlegum árangri. En mjög eru það veikar vonir.

Ef sýningarhópar eru hinsvegar sendir, er um tvennt að velja, íslenzka glímu og leikfimi. Ég hefi áður lýst því, hve óheppilegt er að senda glímuflokka á mót, þar sem enginn skilur íþróttina og ekkert er til samanburðar, svo að í raun og veru væri alveg eins hægt að senda óæfða menn. Úr slíku yrði aðeins leikaraskapur.

Þeir sýningarhópar, sem við gætum sent á mótið, eru því aðeins leikfimiflokkar. Ég vildi gjarnan stuðla að því, að svo gæti orðið, en fyrir því hefir sízt verið hugsað af íþróttafélögunum. Ég hefi þó eggjað félögin á að halda áfram leikfimiæfingum sínum af kappi. Mætti síðan velja hina beztu krafta úr hverju félagi, karla og konur, og slíkum úrvalsflokkum væri ekki of seint að veita fé til æfinga á næsta þingi.

Hinsvegar tel ég alveg þýðingarlaust að veita fé til undirbúnings í keppni á Ólympíuleikunum, enda er satt að segja ráðsmennska íþróttafélaganna og forseta Í. S. Í. í þessum málum ekki verðlauna verð. Mér finnst það ganga frekju næst að fara nú að kalla eftir fé, eftir alla þá deyfð, sem hingað til hefir verið sýnd um allan undirbúning, og ég mun ekki ljá slíkri fjárveitingu atkv. mitt.