06.12.1934
Efri deild: 54. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2774 í B-deild Alþingistíðinda. (3910)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Pétur Magnússon [óyfirl]:

Ég ætla fyrst að minnast örfáum orðum á skilninginn á 1. gr. frv., því orðalagi, að „hafa með höndum“ fólksflutninga. Þegar hv. frsm. talaði í annað sinn og var að svara hv. 1. þm. Reykv., tók hann sem dæmi, að ef nokkrir menn slægju sér saman um bifreið og færu í ferðalag, þá væri þeim það vitanlega heimilt, þótt þeir ætluðu að fara með fjölskyldur sínar og þyrftu að taka bifreið stærri en 6 sæta. Það er vitanlegt, að þær falla ekki að sjálfsögðu undir ákvæði þessara l. (SÁÓ: Ég átti við „drossíur“). Þá er svarið út í hött, og því geta menn ekki varað sig á. Ég hélt, að hv. þm. ætti við, að mönnum væri heimilt að taka „privat“-bifreið, þótt stærri væri en sex sæta. Hv. 1. þm. N.-M. kemur svo á eftir og segir, að undir þetta ákvæði falli að sjálfsögðu allt, sem geti heitið að hafa atvinnu af því að flytja fólk í bifreiðum. Þarna finnst mér vera komið fram ótvírætt ósamræmi, og þótt menn vilji halda sér við þennan þrengri skilning hv. 1. þm. N.-M., þá ætla ég, að erfitt sé að skera úr um það, hvað er að hafa atvinnu af því að flytja fólk í bifreiðum. Hér í Rvík hefir t. d. tíðkazt í mjög stórum stíl, að svokallaðir „kassar“ hafa verið settir á vörubifreiðar og fólk farið í þessum „kössum“ út um sveitir, aðallega á sunnudögum. Er þetta að hafa atvinnu af því að flytja fólk í bifreiðum, úr því að leiga er tekin fyrir bifreiðina? Þurfa þessir menn sérleyfi? (PHerm: Þeir heyra undir síðari málsgr. 1. gr. — MJ: Ef einhverjir auglýsa nú þessar ferðir á hverjum sunnudegi?). Já, ef þetta er gert að staðaldri um allar helgar, þá er ég samt ekki viss um, að hægt væri að heimfæra það undir þetta. (SÁÓ: Það er nú ætlazt til þess samt). Það kann að vera. En það hefir komið skýrt fram í þessum umr., að ákvæðin um þetta atriði eru hvergi nærri nógu skýr, þar sem hv. þm. greinir á um, hvernig beri að skilja þetta. — Svo kem ég að tilefninu til þess, að farið var að setja þessa löggjöf, og get þá svarað báðum í einu, hv. frsm. og hv. 1. þm. N.-M. Þeir segja, að tilefnið sé það, að bifreiðanotkun hefir aukizt stórlega á seinustu árum, og séu nú aðalfarartækin, að skipunum undanteknum. Ég fullyrði, að þetta út af fyrir sig gefi alls enga ástæðu til þess að setja þessar reglur, sem hér er farið fram á, svo framarlega sem ekki er sýnt fram á, að skipulagið hafi reynzt illa, og líkindi séu til, að hið nýja skipulag reynist betur. Í grg. frv. segir: „Eins og bifreiðaflutningarnir eru reknir nú, fer mjög mikið fé forgörðum sökum óhóflegrar samkeppni, án þess að almenningur hljóti þann hag af, sem að nokkru leyti samsvari eyðslunni.“

Ég hafði sýnt fram á það, og því ekki verið mótmælt, að fargjöldin með bifreiðum undanfarin ár hafa verið mjög lág. Það er ekki hægt að segja, að það hafi verið mjög tilfinnanlegt fyrir fólkið að ferðast með bifreiðum, miðað við önnur flutningatæki. Það hefir og verið sýnt fram á, að þrátt fyrir lág flutningsgjöld hafa bifreiðastöðvarnar þrifizt vel, og þetta hefir verið sómasamlegur atvinnurekstur. Hvernig stendur þá á því, að hægt er að draga af þessu þá ályktun, að þarna fari mikið fé forgörðum vegna of mikillar samkeppni? Menn verða fyrst að sýna fram á eitt af tvennu: Annaðhvort að flutningsgjöldin séu óþarflega há, — nú held ég að forsvarsmönnum frv. gangi illa að telja mönnum trú um, að þau lækki við skipulagninguna —, eða þá hitt, að rekstur bifreiðastöðva hafi verið og sé svo óarðvænlegur atvinnurekstur, að ástæða sé til þess að grípa fram í þess vegna. Hv. frsm. drap að vísu á það, að einhverjir bifreiðastjórar hjá einni stöð, sem hafa haft flutninga á langleiðum, hafi borið rýran hlut og stöðin orðið að gefast upp. En þetta er einungis eitt einstakt dæmi, sem ekkert sannar. Til þess geta legið margar ástæður aðrar en þær, að bifreiðum hafi verið ofhlaðið á þessar leiðir. Að óánægja hafi verið meðal almennings í þessu efni undanfarið, eins og frsm. drap á, þá held ég, að það sé alveg tilefnislaust hjá honum. Það kann að vera ein og ein óánægjurödd í garð einstakra bifreiðarstjóra, eins og alltaf gerist, en mér þykir ótrúlegt, að ef almenn óánægja hefði verið með þetta atriði, þá hefði ég aldrei orðið hennar var, en það hefi ég aldrei orðið. Ég get því endurtekið það, sem ég áður sagði, að þegar búið er að sýna fram á, að það skipulag, sem nú er á þessum málum, hafi reynzt ágætlega og engin óánægja er með það, þá er fásinna að fara að gera tilraunir með annað skipulag, þótt það e. t. v. geti gefizt vel — um það er ekkert hægt að fullyrða; formælendur þess halda því a. m. k. fram, en um það er ekkert hægt að segja að svo stöddu. Slíkar tilraunir gætu verið réttmætar, ef þessi atvinnurekstur væri í því horfi, að ástæða væri til þess og óánægja almenn. En þegar þetta er ekki fyrir hendi, eru þessar ráðstafanir óréttmætar. — Hv. 1. þm. N.-M. talar um það, að það sé engin ástæða til þess að ætla, að bifreiðarnar versni, verri tegundir verði notaðar og að bifreiðastjórarnir verði ekki eins hæfir til síns starfs undir hinn nýja skipulagi. Aðalatriðið er það, hvort bifreiðarnar eru nú í boðlegu ástandi eða ekki. Ef þær eru það ekki, þá eru það engin meðmæli með hinu væntanlega skipulagi, að þær versni ekki. En ég er ekki óhræddur um nema annað af þessu færi versnandi, bifreiðarnar eða bifreiðastjórarnir, nema hvorttveggja væri. Það er ekki hættulaust, þegar búið er að útiloka alla samkeppni og eigendurnir vita, að fólkið verður að sætta sig við þeirra bifreiðar, hvort sem þær eru góðar eða vondar, að hætt verði að hugsa um, að farartækin séu almenningi boðleg. (SÁÓ: Frsm. þótti þær óþarflega góðar). Já, það er eitthvað til hér af „luksus“-bifreiðum, en ekki mikið af þeim notað á langleiðum. Þessir í manna vagnar, sem ein stöðin hafði í langferðum uni skeið, voru ákaflega vandaðir, en ekki hægt að kalla þá „luksus“-vagna. (MG: Svo falla þeir heldur ekki undir þetta). Þessir stóru vagnar eru búnir til með tvennt fyrir augum aðallega. Annarsvegar öryggið, og hinsvegar þægindin fyrir farþegana. (SÁÓ: Það eru engar „luksus“-bifreiðar). Nei, og þessar bifreiðar eru mest notaðar á langleiðunum. Vel getur farið svo, að þegar skipulagningin er á komin, minnki áhuginn fyrir því að fá góða og vel hæfa bifreiðarstjóra, af þeirri einföldu ástæðu, að fólkið verður að sætta sig við bifreiðastjórana eins og bifreiðarnar sjálfar. Þetta er stóra hættan við þessa skipulagningu.

Það er verið að tala um, að ég fari hér með dylgjur, þegar ég segi, að það sé almennt álitið, að annað liggi til grundvallar þessu frv. en upp sé látið. Það má vel taka það gilt, að hv. 1. þm. N.-M. þykist ekkert vita um þetta, en ég trúi naumast, að hv. 4. þm. Reykv. hafi ekki heyrt þess getið. En annars tel ég mér ekki bera skyldu til þess að skýra frá hinum leyndu ástæðum, því að flestum hv. þm. munu þar kunnar. Það er þeirra, sem mæla fyrir frv., að koma fram með allar ástæður, en ekki þeirra, sem tala gegn því, svo að ef þeir vilja fá ástæðuna fram þá ættu þeir ekki að þykjast of góðir til að nefna hana. (JBald: Því ekki að koma fram með dylgjurnar? Þeir, sem brjóta upp á þeim, eiga að koma fram með þær).