06.12.1934
Efri deild: 54. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2780 í B-deild Alþingistíðinda. (3915)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Bernharð Stefánsson [óyfirl.]:

Ég þakka hv. frsm. og hv. 1. þm. N.-M. fyrir loforð þeirra um að taka orð mín til yfirvegunar fyrir 3. umr. Hv. frsm. gat þess, að hér væri það komið í meðvitund fólks, að vöru- og mannflutningar ættu að vera aðskildir. Þessu er ekki svo farið úti á landi, enda hagar þar víða öðruvísi til. Ferð t. d. austan úr sveitum til Reykjavíkur tekur svo langan tíma, að það mundi fara illa um fólk, ef það ætti að vera á bifreiðarpalli alla þá leið. Og hér úr næstu sveitunum eru ferðir svo tíðar, að menn geta alltaf fengið sig flutta á annan og þægilegri hátt. Aftur á móti hagar svo til í mínu héraði, að þar er ekki að ræða um aðrar ferðir úr sveitunum í verzlunarstaðinn en mjólkurbílana, sem fara á hverjum morgni ofan úr sveitunum í kaupstaðinn og aftur upp í sveitirnar að kvöldi. Og oftast nær óskar fleira fólk eftir fari en það, sem kemst fyrir í farþegarúmi bílanna. Ef þessir flutningar væru bannaðir, mundi það valda stórkostlegri truflun í öllu daglegu lífi fólksins. Hv. frsm. talaði um hættu, sem stafaði af svona flutningum. Það má vera, að einhver slys hafi orðið af því hér, en ég veit ekki til, að neitt slys hafi orðið af þessu t. d. í mínu héraði, og eru þó svona flutningar mjög algengir þar, svo að varla er hægt að kenna fyrirkomulaginn um. Ég er alveg sammála hv. þm. um það, að á langleiðum séu þetta óhæfir flutningar, en á 5—10 km. leiðum sé ég ekkert, sem mæli á móti þeim.