20.12.1934
Neðri deild: 65. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2820 í B-deild Alþingistíðinda. (3962)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að gera hv. 3. þm. Reykv. það til geðs að lengja umr. út af þessum glósum hans. Ég vil aðeins undirstrika, hvílík neyðarvörn kom fram í ræðu hv. þm. Hann stendur hér upp með miklum rosta og finnur að viðkvæmni, sem komið hefði fram hjá mér og eins hv. 2. þm. Reykv. og hæstv. atvmrh., af því að þeir hafi heimtað að fá að höfða mál út af ummælum, sem látin voru falla hér í þinginu. Hann kallaði þetta hlægilegt. En ég benti honum á, að hann hefði sjálfur sýnt sömu viðkvæmnina, þegar Jón Magnússon kallaði blað hans Vísi saurblað. Nú reynir hann að breiða yfir það með því að segja, að honum hafi ekki þótt viðeigandi að fara í mál, eftir að Jón Magnússon hafði beitt sér fyrir, að honum yrði leyft það. Jón Magnússon kvaðst mundu standa við ummæli sín og bað þingdm. um leyfi til, að hv. þm. mætti höfða málið. Hefði það enginn ódrengskapur verið að koma þannig á móti honum frammi fyrir dómstólunum. Það væri heldur enginn ódrengskapur af hv. 2. þm. Reykv. að nota sér þennan rétt, ef hv. 8. landsk. byði honum það sama. Svona neyðarvörn er þýðingarlaus. Þetta mál hv. þm. vakti sérstaka athygli hér í bæ á sínum tíma. Ég man t. d. hvílíka eftirtekt það vakti í háskólanum. Kemur það honum að sjálfsögðu illa, að það sé nú rifjað upp, að hann þorði ekki að höfða málið.

Ég hefi ekki sýnt hér neina viðkvæmni og ekki heldur sakað aðra um slíkt. Það er hv. þm. sjálfur, sem mesta viðkvæmni hefir sýnt, þegar líkt stóð á.