29.11.1934
Neðri deild: 48. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í C-deild Alþingistíðinda. (4007)

87. mál, bæjargjöld á Akureyri

Guðbrandur Ísberg:

Ég vil þakka hv. meiri hl. fjhn. fyrir góða afgreiðslu þessa máls, þrátt fyrir brtt., sem hann flytur, en ég legg ekki mikið upp úr.

Ég geng út frá því, að nefndin telji nauðsynlegt að ráða málefnum sveitarfélaga. hvað snertir möguleika til útsvarsálagningar, fljótlega til lykta með nýrri löggjöf, og þessi brtt. hlýtur að miðast við, að nefndin telji æskilegt og líklegt, að það verði gert þegar á næsta þingi. Undir þeim kringumstæðum, að þetta verði gert, er brtt. nefndarinnar þó í sjálfu sér óþörf. Því um leið og ný löggjöf yrði sett, yrðu eldri lög um þetta efni, er kæmu í bága við hina nýju skipun, numin úr lögum.

Viðvíkjandi afstöðu hv. minni hl. vil ég taka það fram, að það er ekki um það að ræða að létta af útgjöldum. Þetta frv. er borið fram í þeim tilgangi að mæta nýjum útgjöldum. Það er óþarfi að endurtaka það, að bæjarsjóður Akureyrar hefir mikla þörf fyrir nýjar tekjur. Annars hefði bæjarstjórnin ekki farið fram á það, að þetta frv. væri borið fram hér á hv. Alþ. Í öðru lagi vil ég benda á það, að einn af flokksbræðrum hv. 1. landsk., Erlingur Friðjónsson. hefir vegið þessu þörf með því að gjalda því samþykki, að frv. væri flutt, og hann hefir séð nauðsyn þess fyrir bæinn að fá þessar tekjur.

Að því er bændurna snertir má geta þess, að Vilhjálmur Þór hefir lagt til, að frv. verði samþ., en hann má skoða sem fulltrúa bænda í Eyjafirði. Hann mun hafa litið svo á, að eyfirzkir bændur, er nú búa að markaðinum á Akureyri. þyrftu ekki að kvarta, þótt örlítið gjald bættist á þeirra útflutningsvörur. Það er því ástæðulaust fyrir samflokksmenn hans hér að gera þetta ógilt; Vilhjálmur Þór þekkir þetta bezt sjálfur. Ég vænti þess, að ég þurfi ekki gefið tilefni til umr. með þessari ræðu minni, og að hv. d. leyfi frv. að ganga áfram sem bráðabirgðalausn á þessu máli.