02.11.1934
Neðri deild: 26. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í C-deild Alþingistíðinda. (4038)

46. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Landbn. hefir orðið ásátt um að afgr. þetta mál með dagskrá á þskj. 134.

Því hefir verið hreyft við umr. hér í hv. d., að það hafi verið með öllu óþarft að bera þetta mál fram. Þetta kom einnig fram í n., og voru þar um það skiptar skoðanir. Sumir nm. töldu það ákvæði, sem hér er um að ræða, svo skýlaust í lökunum, að engin ástæða væri til að bera fram till. um breyt. á þeim, en nokkur hluti n. áleit aftur fulla ástæðu til, að menn gætu lagt annan skilning í lögin en þann, að heimildin til styrkveitinga eigi að gilda meðan lögin standa óbreytt. En n. var sammála um, að ef samþ. væri rökst. dagskrá eins og sú, sem n. flytur á þskj. 134. sem slær því föstu, að heimildin skuli gilda um öll þau frystihús, sem byggð verða í framtíðinni til kjötfrystingar, þá sé þar með fengin fullnægjandi ályktun frá þinginu um það, hvernig beri að skilja þessi tvíræðu ákvæði l.

Til sönnunar því, að eðlilegt er, að menn leggi mismunandi skilning í þessa lagagrein, skal ég lofa hv. þdm. að heyra, hvernig hún hljóðar (með leyfi hæstv. forseta):

„Heimilt er ríkisstjórninni að greiða eða taka að sér greiðslu á lánum, allt að 1/4 stofnkostnaðar, er tekin hafa verið til að reisa frystihús samvinnufélaga eða sýslufélaga, enda sé aðalhlutverk þeirra að frystu kjöt til útflutnings.“ — Nú má leggja tvennskonar skilning í orðin „tekin hafa verið“. Fyrst þann, sem flm. frv. hefir gengið út frá, að átt sé við þau lán, sem tekin höfðu verið þegar lögin voru gerð. Hinsvegar þann, að þetta nái til þeirra hina, sem „tekin hafa verið“ í hvert skipti, sem frystihús er byggt. N. lítur svo á, að þannig beri að skilja lögin, og þannig verði þau að skiljast framvegis, ef sú rökst. dagskrá er samþ., sem n. ber fram.

Enn meiri ástæða er til þess, að menn hafa verið í vafa um, hvernig bæri að skilja þessi ákvæði, þegar það er athugað, að þau komi fram í l. um ráðstafanir vegna fjárkreppunnar, sem liggur mjög nærri að skoða yfirleitt sem bráðabirgðaákvæði, og í forsögu málsins kemur fram, að greiða átti þetta úr Kreppusjóði á einu stigi málsins, þó endanleg niðurstaða yrði sú, að það skyldi greiða úr ríkissjóði. Á einu stigi málsins var greinin orðuð þannig (með leyfi hæstv. forseta):

„Heimilt er ríkisstjórninni að láta ríkissjóð taka að sér greiðslu á lánum þeim úr Viðlagasjóði og Búnaðarbankanum, er hvíla á frystihúsum, er frysta kjöt til útflutnings og eru eign samvinnufélaga eða sýslufélaga, allt að 1/4 stofnkostnaður.“ — Á þessu stigi er það skýlaust, að heimildin átti aðeins að ná til þeirra frystihúsa, sem búið var að byggja. En eins og málið liggur fyrir nú, má eins taka það svo, að heimildin nái einnig til frystihúsa, sem eftir er að byggja.

Við 1. umr. var því hreyft hér af tveimur hv. þdm., að eigendur frystihúsanna mundu nota þau til ýmislegs annars heldur en lögin, sem heimila styrkveitingu til frystihúsa, gera ráð fyrir. Óskaði hv. 3. þm. Reykv. upplýsinga um það frá n., hvort styrkur hefði verið veittur til frystihúsa, sem væru mestmegnis notuð til að frysta beitusíld. Ég hefi leitað mér upplýsinga um þetta og því fer fjarri, að svo sé. Ég skal lesa upp hvaða frystihús hafa fengið styrk: Það er frystihús Kaupfélags Stykkishólms, Verzlunarfélags Hrútfirðinga, Kaupfélags Vestur-Húnvetninga, Sláturfélags Austur-Húnvetninga, Sláturfélags Skagfirðinga, Kaupfélags Skagfirðinga, Kaupfélags Eyfirðinga, Kaupfélags Svalbarðsstrandar, Kaupfélags Þingeyinga, Kaupfélags Norður-Þingeyinga, Kaupfélags Vopnfirðinga, Kaupfélags Héraðsbúa og Sláturfélags Suðurlands. Um öll þessi frystihús má segja það, að þeim berst meira kjöt til frystingar heldur en þau eiginlega nægja til, og sum þeirra verða að frysta tvisvar sinnum yfir haustið það, sem þau geta tekið á móti. Hinsvegar get ég upplýst það, að Samband ísl. samvinnufélaga og Kaupfélag Eyfirðinga hafa keypt frystihús, sem notuð eru eingöngu til síldarfrystingar, og hefir hvorugt fengið styrk til þeirra kaupa. Svo hefir S. Í. S. keypt frystihús hér í Reykjavík, Herðubreið, sem að vísu er notað nokkuð til síldarfrystingar, en aðallega til kjötfrystingur, og hefir það ekki heldur fengið neinn styrk til þess.

Þannig er óhætt að fullyrða, að öll þau frystihús, sem styrk hafa fengið, eru ýmist eingöngu eða aðallega notuð til kjötfrystingar. Á sumum stöðum eru frystihúsin notuð til þess að fullnægja þörf manna fyrir beitusíld, þann tíma árs, sem þau ella standa auð, en ekki nema að litlu leyti. Aðallega hefir síldarfrysting samvinnufélaganna farið fram í þeim frystihúsum, sem þau hafa sérstaklega keypt til þess. Kaupfélag Eyfirðinga frystir nokkuð af síld í frystihúsinu á Akureyri og á Svalbarðseyri, en mér er sagt, að um 2/3 þeirri beitusíld, sem félagið verzlar með, sé fryst í frystihúsi þess á Siglufirði, sem enginn styrkur hefir verið veittur til.

Þá var hv. 8. landsk. að óska eftir upplýsingum um, hvort kaupfélögin notuðu frystihúsin, sem þau fengju styrki til að koma upp, til þess að geta okrað á beitusíld. Ég þykist hafa svarað þessari fyrirspurn með því, sem ég hefi nú skýrt frá, að það er að mjög litlu leyti fryst síld í þeim frystihúsum, sem ríkið hefir veitt styrk til. Hinsvegar verzlar S. Í. S. og Kaupfélag Eyfirðinga talsvert mikið með beitusíld fyrir félaga sína. Hv. þm. nefndi sem dæmi, að síld hefði verið keypt ný á 5 aura kg. og seld út aftur fryst á 25 aura kg., og bað n. afla upplýsinga um, hvort þetta væri rétt. Starfsemi frystihúss Kaupfélags Eyfirðinga á Siglufirði byggist á því, að það kaupir síld með gangverði yfir síldveiðitímann og selur hana út aftur á vertíðinni með því gangverði, sem þá er á beitu yfirleitt, eða því sem næst. Það mun vera rétt hjá hv. þm., að síldin hafi verið keypt á 5 aura kg. og seld á 25 aura kg., þegar hún er seld í smásölu til einstaklinga ósamningsbundið allan veiðitímann. Þetta kann að þykja mikil álagning, að óathuguðu máli, en eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi fengið frá mönnum, sem verzla með þessa vöru, þá er langt frá því, að hér sé um nokkurt okur að ræða. Frystingin er dýr, og áhættan við þessa verzlun mikil, þannig að oft kemur fyrir, að ekki selst nema lítill hluti af því, sem fryst er; hinu verður að moka út. Því til sönnunar vil ég geta þess, að Ólafsfirðingar hafa komið upp sínu eigin frystihúsi, og þeir selja 22 aura að frysta síldina, og geyma hana án þess að taka nokkra ábyrgð á henni. Hún kostar þá 27 aura kg., ef hún selst öll upp, en annars miklu dýrari. N. er kunnugt um það, að síðan Kaupfélag Eyfirðinga fór að verzla með beitusíld, hefir hún talsvert lækkað í verði. Og það er síður en svo, að sú starfsemi sé gróðafyrirtæki; með þessu útsöluverði á síldinni er tæplega að hún beri sig. Þegar síldin er seld með samningi fyrirfram, er verðið töluvert miklu lægra. Og til samanburðar við þetta verð skal ég upplýsa, hvað síldin var seld hér við Faxaflóa síðastl. vetur. Hér í Rvík var hún seld á 37 til 38 au. kg., í Sandgerði 40 au. kg., í Keflavík 35—37 au. kg,. á Akranesi 37—38 au. kg. og í Grindavík 40 au. kg. Af þessum upplýsingum sést, að þó Kaupfél. Eyfirðinga selji beitusíldina á 25 aura kg., þá er það langódýrasti seljandi þessarar vöru. Það fellur að vísu nokkur kostnaður á síldina við það að flytja hana hér suður, ef hún er flutt að norðan, en sá kostnaður mun þó ekki vera yfir 3—4 au. á kg. og samsvarar því ekki verðmuninum nyrðra og hér.

Ég vona, að ég hafi þá gefið hv. þm. þær upplýsingar, sem þeir báðu um, og að þær hafi sýnt, að því fer fjarri, að þær ásakanir séu réttmætar, sem bornar hafa verið á Kaupfélag Eyfirðinga í sambandi við þetta mál.