13.11.1934
Neðri deild: 35. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í C-deild Alþingistíðinda. (4070)

122. mál, Kreppulánasjóður

Bjarni Ásgeirsson:

Eins og tekið er fram í nál., hefi ég leitt þetta mál hjá mér í landbn., og geri ég ráð fyrir, að ég muni einnig láta það afskiptalaust við atkvgr., þar sem það viðkemur mér persónulega. En ég get ekki látið hjá líða að minnast á þær miklu umr., sem orðið hafa í sumum blöðum um þá miklu ósvinnu, að aðalbankastjóri Búnaðarbankans skuli hafa þegið sérstök laun fyrir Kreppulánasjóðsstj., auk launa sinna við bankann. Ég finn ekki að því, þótt Alþingi færi niður laun hátt launaðra starfsmanna. En það er ekki rétt að nefna í því sambandi sérstaklega þennan mann, því að ýmsir hátt launaðir menn í þjóðfélaginu hafa jafnan haft á hendi mörg aukastörf og miklu hærra launuð en þessi maður. Menn hafa stundum haft þreföld og fjórföld aðallaun sín með ýmsum aukalaunum fyrir aukaverk. Aðrir bankastjórar hafa haft mörg aukastörf og margföld á við þennan mann. Vona ég, að tillit verði tekið til þessa, þegar réttlætistilfinningin knýr hv. þm. til að koma með till. um breytingar í þessu efni. Þess ber að gæta, að þetta aukastarf er svo óvinsælt, að leitun er á öðru eins. En það leikur ekki á tveim tungum, að þessi maður hefir leyst það vel af hendi, svo að ekki er á margra færi að leika það eftir. Hefir hann í þessu starfi sýnt þvílíka lipurð og lagni, að hann á ekki skilið að vera úthrópaður, og á það eitt minnzt, að hann tekur laun fyrir, ekki sízt þar sem svipað er látið óátalið, þegar aðrir eiga í hlut.