09.11.1934
Neðri deild: 32. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (4136)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Það er nú búið að ræða þetta mál meira og minna í fjóra daga, og ég verð að segja, að ef kviðdómur ætti að dæma um það, hvernig málið hefir verið flutt á báðar hliðar, þá þyrfti góðan dómstjóra til þess að skýra fyrir áheyrendum, um hvað hefði verið deilt, og rökstyðja dóm með þessum umr.

Þetta er nú 1. umr. um mál, sem allir hv. þdm. eru meira og minna sammála um að efni til. Í fyrstu spratt upp deila um það, hvers vegna hv jafnaðarmenn og hv. framsóknarmenn vildu ekki vera flm. frv. Þegar það síðar upplýstist í málinu, að hv. þm. Ísaf. hafði á fiskiþinginu tekið afstöðu gegn málinu, þá snýst deilan um það, að þessi hv. þm. fer að reyna að verja sín, afstöðu, og endar hann með því að hella yfir andstæðing sinn meiri persónulegum skömmum og svívirðingum heldur en dæmi, eru til, að forseti hafi leyft nokkrum þm. að viðhafa. Þessi hv. þm. hefir þannig gert tilraun til að reyna að draga athygli hv. þdm. frá sinni óforsvaranlegu framkomu í málinu, með því að fara út í persónulegar rótarskammir. Það er ákaflega skemmtilegt fyrir „rauðu“ flokkana í þinginu, sem bæði hér í þinginu og í blöðum sínum eru að ræða um málþóf sjálfstæðismanna á þingi, að maður úr þeirra hópi skuli hér halda klukkutímaræðu án þess að snerta á því máli, sem fyrir liggur, í þeim tilgangi að reyna að leiða athygli frá óhæfilegri framkomu sinni í þessu máli. Hv. þm. veit, að hann getur ekki annað en verið málinu fylgjandi, eins og flokksmenn hans, hv. 6. og hv. 3. landsk., og ennfremur hv. þm. Barð. Hv. þm. Ísaf., sem eins og kunnugt er hefir nú snúizt í málinu frá því sem hann kom fram á fiskiþinginu, hangir nú eins og hundeltur göltur fastur á hárinu í því tré, sem hann sjálfur hefir reist sér frá rótum.