12.10.1934
Neðri deild: 8. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í C-deild Alþingistíðinda. (4188)

53. mál, opinber ákærandi

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Það frv., sem hér liggur fyrir, felur í sér þá breyt. á réttarfarslöggjöfinni, að taka ákæruvaldið úr höndum dómsmálaráðuneytisins og fá það opinberum ákæranda.

Ákæruvaldið er réttur ríkisvaldsins til þess að kæra mann til refsingar fyrir ólöglegar athafnir hans. Að vísu hefir hver einstakur borgari, sem þykist vera órétti beittur, eða hefir komizt að refsiverðu athæfi, rétt til þess að kæra þann, sem brotlegur hefir orðið, og heimta að málið sé rannsakað. En þessi kæruréttur einstaklinganna er ekki það ákæruvald, sem hér er átt við. Ákæruvaldið táknar það, hvaða yfirvald í landinu hafi heimild til þess að ákveða, hvort opinber rannsókn skuli fara fram og hvort málshöfðun skuli eiga sér stað.

Þetta ákæruvald er einkum í höndum þriggja aðilja: Alþingis, sýslumanna og dómsmálaráðherra. Alþingi eitt hefir vald til að ákæra ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra og stefna þeim fyrir landsdóm. Um ákæruvald sýslumanna er það að segja, að þegar um smávægileg brot er að ræða, eða augljóst, hver hinn seki er, geta þeir upp á sitt eindæmi höfðað mál. En það er ákæruvald dómsmálaráðuneytisins, sem mestu máli skiptir, því að í flestöllum opinberum málum, sem fyrir koma, er það þetta ráðuneyti, sem tekur ákvörðun um, hvort rannsókn skuli fara fram og mál höfða.

Það hefir geysimikla þýðingu, í hverra höndum ákæruvaldið er og hvernig með það er farið. Það er hin mesta nauðsyn, að það sé í höndum góðra og réttsýnna manna og því sé beitt með fullu réttlæti. Í meðferð þess er tvenns að gæta. Annarsvegar, að því sé beitt gegn öllum þeim, sem glæpi hafa drýgt, og hinsvegar, að því sé ekki beitt gegn saklausum mönnum. Það getur haft geigvænleg áhrif, ef maður er ákærður fyrir afbrot, sem hann er alsaklaus af, jafnvel þótt hann verði sýknaður að lokum. Ákæran ein, með öllum þeim réttarhöldum, vitnaleiðslum, varðhaldi, yfirheyrslum og umtali manna í milli, sem sakamálarannsókn eru samfara, getur gert honum slíkt tjón, bæði andlega og efnalega, að hann bíði þess seint bætur. En jafnnauðsynlegt og það er, að enginn maður sé að þarflausu eltur með sakamálarannsókn og málshöfðun, þá er hitt ekki síður hin ríkasta nauðsyn, að refsivöndur laganna sé aldrei látinn hvíla, þegar lögbrot er framið. Vanræksla á því að draga seka menn til ábyrgðar fyrir verk sín hlýtur að veikja stórlega réttaröryggið í landinu og brjóta niður virðingu manna fyrir lögum og rétti.

Það ætti nú að vera ljóst hverjum manni að það fyrirkomulag er stórgallað, að ákæruvaldið þetta víðtæka vald yfir æru manna og mannorði, hvíli í böndum pólitískra ráðherra. Ráðherrar eru valdir af þeim stjórnmálaflokki eða stjórnmálaflokkum, sem eiga meiri hluta á Alþingi, og þeir standa sjálfir í eldi stjórnmálabaráttunnar. Þegar jafnviðkvæmt mál og ákæruvaldið blandast inn í heiftúðugar stjórnmáladeilur, þá er mikil hætta á misbeitingu þess. Þá getur vel svo farið, að gengið sé á svig við það, sem rétt er og löglegt, og ákæruvaldið notað til ofsóknar gegn pólitískum andstæðingum, eða til þess að hilma yfir með samherjum. Og þessi hætta verður því meiri, sem flokkadeilurnar harðna og baráttan um stjórnmálin verður óvægari.

Reynslan hefir líka staðfest þetta með dómi sínum svo óvéfengjanlega, að um það verður ekki deilt. Á undanförnum árum hefir ákæruvaldinu hvað eftir annað verið beitt á þá lund, að það er fullkomið hneyksli. Það hafa borið við dæmi þess, að andstæðingar ríkisstjórnar hafa verið eltir og ofsóttir með röngum ákærum og sakamálshöfðunum, í pólitískum tilgangi einum saman. Og dæmi hins eru líka mörg, að þegar samherjar ráðherra hafa gerzt sekir um lögbrot. hefir verið dregin fjöður yfir og refsivendi laganna leyft að hvílast.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er tilraun til. þess að bæta úr göllum þessa ástands. Meginefni þess er í fáum orðum á þá leið, að ákæruvaldið verði tekið úr höndum dómsmálaráðuneytisins og falið sérstökum embættismanni, opinberum ákæranda, sem ætlazt er til, að standi utan við stjórnmálabaráttuna, eftir því sem unnt er. Þessi maður verður að vera löglærður, en auk þess er ætlazt til, að hann fullnægi þeim skilyrðum, sem sett eru til þess að vera málflutningsmaður fyrir hæstarétti. Sú krafa stafar m. o. af því, að hinn opinberi ákærandi á að sækja opinber mál í hæstarétti. Þetta felur í sér það, að hann þarf að hafa starfað í 3 ár við tiltekin lögfræðistörf, svo að hann hafi öðlazt þá reynslu, sem nauðsynleg er talin. Auk þess þurfa hæstaréttarmálfærslumenn að hafa staðizt prófraun, sem er í því fólgin, að þeir sýni hæfni sína til starfsins með flutningi fjögurra mála í hæstarétti. En nú kynni einhver að sækja um starfið, sem ekki væri hæstaréttarmálflutningsmaður, og hefði því ekki gengið undir þessa próf raun. Til þess að veitingin þurfi ekki að dragast um of, meðan verið er að reyna slíka umsækjendur er því svo ákveðið í frv., að nægilegt sé, að þeir flytji 2 opinber mál, í stað þeirra 4 mál,, sem annars er krafizt.

Ég tel nauðsyn á að hafa ströng skilyrði fyrir því að geta fengið þetta starf, til þess að tryggt sé, að ekki veljist í það nema færustu menn.

Um veitingu embætta gildir yfirleitt sú regla, að konungur, eða ráðherra réttara sagt, veitir þau og velur í þau menn að eigin vild. En þessi aðferð getur ekki átt við hér. Ein aðalástæðan fyrir stofnun þessa starfs er sú, að ákæruvaldinu er ekki vel borgið í höndum ráðherra. Þess vegna verður einnig að koma í veg fyrir, að sá ráðherra, sem kynni að veita þetta embætti gæti valið í það eftir eigin geðþótta, flokksbróður og fylgismann, því að þá gæti svo farið, að þessi l. næðu ekki tilgangi sínum. Ráðherrann gæti eftir sem áður haft öll ráð yfir ákæruvaldinu, þegar hann hefði skipað einhvern þægan þjón sinn til þess starfs.

Það er því óhjákvæmilegt, ef þessi löggjöf á að verða að einhverjum notum, að leggja hömlur á veitingarvald ráðherra. Það má gera með þeim hætti að láta einhverja stofnun, t. d. lagadeild háskólans eða æðsta dóm þjóðarinnar, gera till. um manninn, og kveða svo á, að stj. sé bundin við þær till. Það hefir nú orðið ofan á í þessu frv. að binda veitinguna við till. hæstaréttar. Virðist það vera eðlileg leið, m. a. af þeirri ástæðu, að starf hins opinbera ákæranda verður að talsverðu leyti bundið við þann dómstól, verkefni hins opinbera ákæranda verður fyrst og fremst það, að taka ákvörðun um, hvenær opinber rannsókn skuli fara fram og hvenær mál skuli höfðað. Í öðru lagi á hann að ákveða, hvort dómi skuli áfrýjað, sem gengið hefir fyrir undirrétti í opinberu máli. Í þessu hvorutveggja tekur hann við þeim störfum, sem hingað til hafa heyrt undir dómsmálaráðuneytið. Og hann á í þessu starfi sínu að hafa það hvorttveggja fyrir augum, að sekir menn séu látnir sætu ábyrgð og að málssókn gegn saklausum mönnum eigi sér ekki stað.

Ennfremur á það að vera embættisskylda hins opinbera ákæranda að sækja fyrir hæstarétti öll opinber mál, sem þangað er skotið. Nú er tilhögunin sú, að hæstaréttarmálflutningsmennirnir eru til skiptis skipaðir til að vera sækjendur opinberra mála þar og fá þóknun fyrir hvert mál. Í öðrum löndum, þar sem opinberir ákærendur eru, annast þeir sókn þessara mála fyrir dómstólunum, og hér á landi yrði starf hins opinbera ákæranda tæplega nægilegt, ef þetta væri ekki einnig falið honum. Hinsvegar er það álit kunnugustu manna, að með því verksvið, sem honum er markað í þessu frv., sé honum fengið fullt starf í hendur.

Eftir að ég hefi nú rakið efni frv. í megindráttum, skal ég víkja nokkrum orðum að kostnaðarhlið málsins. Þær raddir munu heyrast, að ekki sé tiltækilegt að leggja út í kostnað við stofnun nýs embættis. En ég vil vekja athygli á því, að á móti þeim kostnaði, sem þetta frv. hefir í för með sér, kemur beinn sparnaður, sem líklegt er, að nemi svipaðri upphæð og útgjöldin.

Til þess er ætlazt, að hinn opinberi ákærandi hafi sömu laun og hæstaréttardómendur, m. a. vegna þess, að honum er bannað að hafa á hendi önnur launuð störf. Laun hæstaréttardómara eru á þessu ári 8690 kr. að meðtalinni dýrtíðaruppbót, en í fjárlfrv. ríkisstj. fyrir næsta ár eru þau áætluð 8000 kr. Auk launa ákærandans verður einhver skrifstofukostnaður. Hinsvegar leiðir af þessu tvennskonar sparnað. Sú þóknun, sem hæstaréttarmálflutningsmenn hafa hingað til fengið fyrir sókn opinberra mála, á nú að renna í ríkissjóð samkvæmt þessu frv., vegna þess að þetta verkefni verður embættisskylda hins opinbera ákæranda, sem hann fær enga aukaþóknun fyrir. Þessi upphæð nam 1933 4400 kr., og fer hún síhækkandi ár frá ári. Á þessu ætti ríkissjóður því á næstu árum að græða árlega um 5000 kr. að minnsta kosti. Í öðru lagi kemur sparnaður í dómsmálaráðuneytinu. Nú gengur mikill tími hjá starfsmönnum þar til þessara mála, og þegar þau verða tekin þaðan burtu, hljóta að sparast þar talsverðir starfskraftar. Því miður er erfitt að áætla þessa upphæð, en vissa er fyrir því, að hún mun nema þó nokkru.

Kostnaðarhliðin ætti því ekki að fæla nokkurn mann frá því að fylgja þessu þarflega máli. Fyrir þessu þingi liggja mörg frv. um fjármál, skattamál og atvinnulíf þjóðarinnar. Vitaskuld er þess að vænta, að í þessum þýðingarmiklu efnahagsmálum takist að finna hinar heilladrýgstu úrlausnir. En það eru til fleiri mál en efnahagsmálin ein. Það eru til önnur verðmæti, eins og æra og mannorð, sem eru dýrmætari en svo, að í tölum verði talin, og óbætanleg í augum heiðvirðra manna. Þetta frv. liggur sérstaklega á því sviði. Það á að verða vörn gegn röngum ákærum, um leið og það á að tryggja, að haldið sé uppi lögum gegn hverjum, sem í hlut á. Í þeirri von, að þetta frv. mitt megi verða eitt sporið í þá átt að tryggja réttlæti í meðferð þessara mála, hefi ég borið það fram. Og í trausti þess, að það mæti velvild og skilningi hjá hv. þm., leyfi ég mér að leggja til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.