10.11.1934
Neðri deild: 33. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í C-deild Alþingistíðinda. (4376)

117. mál, varnir gegn berklaveiki

Sigurður Einarsson [óyfirl.]:

Mig langar til í sambandi við þetta mál að víkja að því nokkrum orðum. — Það eru í raun og veru fáar upphæðir, sem manni verður starsýnna á í fjárlagafrv. og LR. heldur en berklavarnakostnaðinn. Ég geri ráð fyrir, að þótt þetta mál beri nú að sem fjárhagsmál, þá sé það engu síður heilbrigðis- og menningarmál. Ég býst við, að því verði ekki mótmælt með gildum rökum, að sveitar- og bæjarfélög eigi mjög erfitt með að inna þetta gjald af höndum, sem þeim er á herðar lagt með þessum l., og það er í raun og veru þýðingarlaust að reikna ár eftir ár með tekjum, sem er ekki unnt að fá inn. En ég vil, af því að ég er viss um, að þetta mál á eftir að verða athugað vel af þar til heyrandi n., vekja athygli hennar á einu atriði nú við þessa umr.

Það er alvarlegur hlutur og athugunarverður að byggja lausn þessa máls á því, að kasta þessum gjöldum á herðar hins opinbera, sem þegar stendur undir óhemju gjöldum árlega, án þess að spyrja sjálfan sig að því um leið, hvort við séum ekki að sofna á verðinum í þessu berklavarnamáli. Ég skal í þessu sambandi láta það í ljós sem mína skoðun, að ég tel, að upp á síðkastið hafi í raun og veru lítið verið gert í þessu máli annað en að greiða af höndum sívaxandi gjöld í þessu skyni. Nú er berklavarnakostnaðurinn orðinn það stór útgjaldaliður, að menn horfa á og íhuga það, sem minna er.

Hér á landi eru ekki enn sem komið er, hvorki í sambandi við heilbrigðisstj. né fræðslumálastjórnina né neinn annan aðila, sem líklegur væri til þess að takast á hendur forustu þessara mála, gerðar neinar ráðstafanir svipaðar því, sem hafa verið gerðar með ýmsum öðrum þjóðum til þess að einhverntíma mætti sá dagur renna upp, að þessi kostnaður mætti fyrst og fremst fara til þess að reyna að komast fyrir þennan sjúkdóm.

Í Finnlandi er félagsskapur, sem er kenndur við Mannerheim hershöfðingja og var stofnaður af honum, en er nú opinber stofnun. Það er barnavernd Mannerheim. Þessi félagsskapur hefir undirdeildir í hverri sveit landsins, — þar eru líka fámennar sveitir eins og hér, — og vinna þær að því eftir skipulögðu plani, að gæta og vernda heilbrigði ungmennanna í landinu, og þessi félagsskapur General Mannerheim hefir í samráði við heilbrigðisstjórnina og þar til hæfa sérfræðinga gefið út fyrirmæli og leiðbeiningar í þessum efnum almenningi til handa. Það munu vera 10 ár síðan þessi félagsskápur tók til starfa, og skýrslur frá þessum 10 árum sýna, að berklar þar í landi hafa farið þverrandi. Þessi sigur yfir berklunum er að þakka meiri fræðslu, skynsamlegra matarhæfi, skynsamlegri meðferð barna, betri klæðaburði og ýmsu öðru.

Fyrst þetta mál kemur til kasta þessarar d., vil ég skjóta því til allshn., hvort ekki mætti í sambandi við þetta athuga, hvort ekki mætti gera eitthvað í þessa átt hér á landi, því að í raun og veru hryllir okkur við, þegar þessar greiðslur eru komnar á 2. millj., en hingað til hefir berklavarnakostnaðurinn þó oftast verið fyrir neðan 1 millj. Skal ég í þessu sambandi taka eitt fram. Mér er það í barnsminni, þegar mjög ýtarlegum bæklingi eftir Sigurð Magnússon var dreift út um allar sveitir landsins. Ég veit það af viðtali við marga, að það varð stórkostlegur árangur af þessu. Fólkið hrökk upp og fór að gæta sín betur og fór að hugleiða, hvílíkur háski því var búinn, ef ekki var fylgt nauðsynlegum reglum. Þannig varð mikið gagn af þessari fræðslu. Ég á ekki við, að verið sé að geta út slík rit árlega, en það er ekki rétt haldið á málinu, ef ekki er alltaf gert eitthvað til að herja inn á þennan ískyggilega óvin.

Ég vil svo ekki tefja tíma d. með fleiri orðum um þetta, en ég skal hvenær sem er með mestu ánægju láta n. í té þær skýrslur, sem ég hefi í höndum frá þessum félagsskap Mannerheim hershöfðingja. Þar bendir ótvírætt til staðreynda, hvað hefir unnizt með skipulagsbundnum félagssamtökum, á kostnað hins opinbera að nokkru leyti, en sjálfviljugum framlögum annarsvegar. Ég þekki ekki til svona fyrirkomulags annarsstaðar en í Finnlandi, en geri ráð fyrir, að víðar sé um slíka starfsemi að ræða.