18.10.1934
Neðri deild: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í C-deild Alþingistíðinda. (4573)

70. mál, strandferðir

Flm. (Gísli Guðmundsson) [óyfirl.]:

Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 85. lá fyrir síðasta þingi í nokkurnveginn sömu mynd og það er nú, aðeins með einni lítilsháttar breytingu, sem ég mun gera grein fyrir síðar. Það, sem vakti fyrir okkur flm. með því að flytja þetta frv., er að gera með nýrri löggjöf nokkuð til hagræðis fyrir hina íslenzku útgerð, þ. e. a. s. þá útgerð, sem annast mannaflutning með ströndum landsins.

Eins og öllum þdm. er kunnugt, eru það stór kostlegar upphæðir, sem ríkið árlega ver til samgangna á sjó. Það eru svo stórar fjárupphæðir, að fyllsta ástæða er fyrir Alþ. að taka til athugunar, hvort ekki er á einhvern hátt hægt að greiða úr þar. Ég hefi verið að athuga í landsreikningum undanfarandi ára, hve miklu það muni nema, sem íslenzka ríkið er búið að greiða nú síðustu 10 árin, síðan 1924, til samgangna á sjó, og hefi ég þá tekið saman bæði þær upphæðir, sem varið hefir verið úr ríkissjóði til styrktar strandferðaskipunum, til að greiða rekstrarhalla, og það, sem veitt hefir verið til flóabáta, og loks það fé, sem veitt hefir verið úr ríkissjóði til styrktar Eimskipafélagi Íslands, en sá styrkur hefir, að ég hygg, verið áætlaður í tvennu lagi. Annarsvegar til strandferða Eimskipafélaksins og hinsvegar beinn styrkur til starfsemi þess, en sá styrkur hefir farið vaxandi og er kominn upp í 250 þús. krónur á ári. Mér telst svo til, eftir lauslegum útreikningi, að síðustu 10 árin sé ríkið búið að greiðu samtals 5 millj. kr. til þessara hluta, að öðru leytinu til strandferðaskipanna hátt á fjórðu millj. og 1 millj. og 4 hundruð þús. til Eimskipafélagsins á sama tíma. Árið 1933 hafa verið greiddar, samkv. reikningsyfirliti, til samgangna á sjó hátt á 7. hundr. þús. kr. Þetta eru, eins og ég sagði áðan, allháar greiðslur, og okkur flm. finnst fyllilega ástæða til, að Alþ. taki til athugunar nú, hvort ekki sé hægt að draga á einhvern hátt úr þessum útgjöldum.

Því hagar nú svo til, að samhliða því, sem skip Eimskipafélagsins eru rekin með stöðugum halla, þannig, að til verður að koma ríkisstyrkur, þá eru hér reknar strandferðir af erlendum útgerðarfélögum, sem eru í beinni samkeppni við Eimskipafélag Íslands og skip ríkissjóðs. Það má segja, að hér sé um nokkuð ójafna samkeppni að ræða, vegna þess, að þau erlend skip, sem sigla hér, hafa engar skyldur og þurfa ekki annara hagsmuna að gæta en sinna eigin. Þessi skip fara því eingöngu til þeirra hafna, sem gróðavænlegar eru, en hinsvegar verður Eimskipafélagið alltaf að gæta þess að taka nokkurt tillit til þeirra hafna, sem ekki eru gróðavænlegar, og af því leiðir, að samkeppnin verður nokkuð ójöfn.

Við flm. teljum víst, að ef strandferðir gætu færzt í það horf, að þær yrðu sem mest reknar af íslenzkum skipum, skipum Eimskipafélagsins og strandferðaskipum ríkisins, þá mætti koma því skipulagi á þessar ferðir, sem gerði það að verkum, að betur notaðist að ferðum strandferðaskipanna og þau hefðu meira að gera en þau hafa nú, eins og sakir standa.

Ég lít á þetta mál fyrst og fremst sem hagsmunamál hinnar íslenzku útgerðar, ríkisútgerðar og Eimskipafélagsins, og með tilliti til þeirrar upphæðar, sem ég benti hér á áðan, er sýnilega um mjög mikið hagsmunamál að ræða. Það má gjarnan taka það fram, að í raun og veru er ekki sögð öll sagan með þessari upphæð, því að auk þess, sem Eimskipafélagið hefir fengið þann styrk, sem ég nefndi áðan, þá hefir það orðið að vera skattfrjálst, og hefir sömuleiðis hagkvæma samningu um gegnumgangandi fragt með ríkisskipunum, þar sem það greiðir aðeins hálft flutningsgjald ÷ 15%.

Ég ætla svo ekki á þessu stigi málsins að fjölyrða meira um það, en mér finnst þetta mál þess eðlis, að allir flokkar ættu að geta sameinazt um það. Þó var það svo, þegar frv. var flutt hér á síðasta þingi, að þessi sameining var ekki eins mikil og menn gátu ætlað, og er vikið að því í grg. frv. Ég vænti þess samt, að þetta hafi breytzt og frv. verði rækilega athugað og síðan samþ.