17.11.1934
Neðri deild: 39. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í C-deild Alþingistíðinda. (4611)

142. mál, útgerðarsamvinnufélag

Flm. (Bergur Jónsson):

Ástæðan til þess, að frv. þetta kemur fram, er þær mörgu ábyrgðir, sem Alþ. hefir orðið að takast á hendur fyrir útgerðarsamvinnufélög í kaupstöðum og kauptúnum. Eins og hv. þm. Vestm. gat um áðan í ræðu sinni um Fiskveiðasjóðinn, er þingið komið út á hála braut í þessu efni. Þessar ábyrgðarheimildir til einstakra samvinnufélaga verður að stöðva, og það því frekar, sem ekki hefir verið gengið eins tryggilega frá skipulagi þessara félaga eins og verða mætti. Með þessu frv. er gengið svo frá þessum útgerðarsamvinnufélögum, að miklu minni hætta verður á því, að þau kollsigli sig. Þá verður líka minni hætta fyrir Fiskveiðasjóð að styrkja þessi félög með lánum, eftir frv. því, sem ég ber fram í sambandi við þetta mál um breyt. á l. um Fiskveiðasjóð. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara nákvæmlega í einstakar gr. frv. og vonast til, að þm. kynni sér það sjálfir. Þó má geta þess, að ákveðið er á venjulegan hátt, að kalla skuli saman almennan fund til félagsstofnunar, og vilji 5 menn eða fleiri stofna slíkt félag, fá þeir staðfestingu ríkisstj. Annað skilyrði fyrir þeirri staðfestingu er það, að allir fastir starfsmenn félagsins séu um leið meðlimir þess. Þetta er gert til þess að tryggja áhuga allra starfsmannanna fyrir afkomu og velgengni félagsins.

Í 4. gr. frv. er kveðið svo á, að sérhver félagi útgerðarsamvinnufélags skuli bera takmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins, og miðast hún við 500 kr. Með því að takmörkuð ábyrgð er höfð, er því náð, að menn verða óhræddari að ganga í félögin. — Til þess að útiloka kaupdeilur er mælt svo fyrir, að félagsmenn fái öll laun sín með hlut í afla. Í 7. og 8. gr. eru ákvæði um stofnsjóð og varasjóð, og miða þau að því að gera afkomu félagsins sem tryggilegasta. Loks er svo ákveðið, að útgerðarsamvinnufélögin skuli vera undir eftirliti Skipaútgerðar ríkisins, eða annarar stofnunar ríkisins, sem ríkisstj. ákveður. Yfirleitt er leitazt við í frv. að ganga sem tryggilegast frá þessum félögum. Með það fyrir augum hefir líka verið borið fram frv. um breyt. á l. um Fiskveiðasjóð, sem á að tryggja félögunum nægilegt starfsfé.