25.10.1934
Neðri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í C-deild Alþingistíðinda. (4622)

79. mál, ferðamannaskrifstofa

Frsm. (Bergur Jónsson):

Þetta frv. hefir borizt allshn. frá hæstv. atvmrh., og er það samið af skipulagsnefnd atvinnumála. Meiri hl. allshn. hefir orðið ásáttur um flutning þess. Um einstök atriði frv. hafa nm. þó óbundin atkv. og kunna að koma með brtt. Samkv. grg. frv. er það tilgangur þess að stofna ferðamannaskrifstofu hér á landi, til þess að greiða fyrir erlendum ferðamönnum og beina ferðamönnum til landsins og með því auka hingað peningastraum. Þetta frv. á í fyrsta lagi að veita útlendingum sem mesta fræðslu um landið. Skrifstofunni er ætlað að veita fróðleik um landið með það sérstaklega fyrir augum, að vekja athygli ferðamanna á því. Skrifstofan á að sjá um, að birtar verði auglýsingar í þessu skyni. Þar að auki á hún að sjá um, að búið verði vel að ferðamönnum meðan þeir dvelja hér og þeir ekki hraktir frá vegna of hárra gjalda, t. d. hvað snertir flutninga á landi. Ferðaskrifstofunni á að vera heimilt að heimta gjaldskrár af einstökum mönnum, gistihúsum og bifreiðaeigendum í þessu skyni. Geti skrifstofan ekki komizt að samkomulagi við hlutaðeiganda um gjaldskrá, þá á að setja n. til að úrskurða í málinu. Skrifstofunni ber að sjá um, að fyllsta hreinlæti sé um hönd haft og fyllstu prúðmennsku gætt í viðskiptum við erlenda ferðamenn. Yfirleitt gera allt, sem unnt er, til þess að þeim megi verða dvölin hérlendis sem ánægjulegust og gagnlegust og fái sem bezt notið þeirrar fegurðar, sem náttúru landsins hefir að bjóða.

Í frv. er það tekið fram, að ríkið geti falið þetta starf einhverri þeirri ríkisstofnun, sem starfandi sé. En ég hefi ekki getað látið mér detta í hug nokkra þá starfandi ríkisstofnun, sem þetta gæti orðið sameinað, og geri því ráð fyrir sérstakri skrifstofu til að annast þessi mál. Með þessu frv. er ekki verið að grípa fram fyrir hendurnar á einstaklingsframtakinu um að koma á fót slíkri skrifstofu. Hér er einungis um heimildarlög að ræða til að gera hið allra nauðsynlegasta í þessu máli, ef einstaklingarnir vanrækja að inna það af höndum. — Ég vona, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr.