19.12.1934
Efri deild: 66. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í C-deild Alþingistíðinda. (4746)

164. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Ég hafði skrifað undir nál. með fyrirvara, ef ég man rétt. Annars ruglast málin algerlega í þessum mikla hraða, sem nú er hafður á afgreiðslu mála, og e. t. v. er nokkur þörf á. En fyrirvarinn snerti það, að ég vildi gera grein fyrir mínu atkv., þegar þetta mál yrði tekið fyrir. Og sú grg. er á þá lund, að ég mun greiða atkv. með frv., þótt hinsvegar sé nokkuð til í því, sem hér hefir verið fært fram, að það muni lækka vextina í ellistyrktarsjóðnum og þá útborganirnar eitthvað ofurlítið. En sú er bót í því máli, að hægt mun að koma því fyrir með löggjöf, þótt það sé ekki hægt á þessu þingi, þannig að ekki snerti ellistyrktarsjóðinn, þar sem úthlutun mun vera búin á þessu hausti, en á næsta þingi er hægt að breyta þannig til, að ekki leggist jafnmikið við sjóðinn og áður, og á þann hátt bæta upp missinn, sem hlytist af lækkun vaxtanna. (MG: Það er skammgóður vermir). Það er svo mikið, sem leggst til aukningar Söfnunarsjóðs, að vel myndi mega bæta þetta upp, eins og ég hefi sagt. Í öðru lagi stendur fyrir dyrum gagngerð breyt. á tryggingarmálunum yfirleitt, og myndu þá ellistyrktarsjóðirnir koma þar undir. Þetta breytta skipulag liggur sjálfsagt fyrir á næstunni, e. t. v. á næsta þingi, svo að önnur breyt. væri óþörf á þessu. En verði það nú ekki, vil ég vinna að því, að slík breyt. komist á, sem ég hefi nefnt, og mun greiða þessu frv. atkv. Þegar við athuguðum þetta frv. í n., fannst okkur, að við þyrftum að gera smábrtt. vegna skakkrar tilvitnunar. Það er vitnað í 6. lið í staðinn fyrir c-lið í l. frá 1888, um Söfnunarsjóð Íslands. En brtt. hefir þó ekki komið fram, og sýnist mér mega líta á þetta sem prentvillu, þegar það er upplýst, að n. í hv. Nd. var ljóst, að hún hafði haft þetta rétt, og vitnað í c-lið í sínu handriti, en það hefir misfarizt að leiðrétta villu, sem komizt hefir inn í prentun. — Ég vil því skjóta því til hæstv. forseta, hvort hann telji ekki mega lagfæra þetta án brtt., þar sem villan hefir komizt í frv. í meðförum þingsins.