14.12.1934
Efri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í C-deild Alþingistíðinda. (4774)

40. mál, ríkisgjaldanefnd

Bernharð Stefánsson:

Af því að ég á sæti í þeirri n., sem haft hefir mál þetta til meðferðar, vil ég geta þess, að það var ekki tilraun til þess að koma málinu fyrir kattarnef, að meiri hl. n. gaf ekki út neitt nál. Sumpart hefir þetta gleymzt, en atkvgr. í n. um þetta mál fór líka þannig, að hv. 1. þm. Reykv. greiddi atkv. með því, ég greiddi atkv. á móti því, en einn sat hjá.

Ég ætla ekki að lengja umr., því að það er orðið framorðið, en ég vil þó taka það fram, hvers vegna ég er á móti málinu.

Frv. er komið fram til þess að koma í veg fyrir það, að stj. greiði úr ríkissjóði fram yfir það, sem fé er veitt til í fjárl. Að því leyti er tilgangurinn góður. En ég fæ ekki betur séð eins og frv. er, en að það verki alveg öfugt. Í 2. gr. stendur, að ef n. samþ. með öllum atkv. einhverja greiðslu, þá sé það greiðsluheimild handa ráðh. Ég fæ ekki betur séð en að þetta komi í bága við þau ákvæði stjskr., sem mæla svo fyrir, að ekkert fé megi greiða úr ríkissjóði, nema leyfi sé veitt til þess í fjárl., fjáraukal. eða sérstökum l. Ráðh. verður því að leita samþykkis þingsins fyrir öllum greiðslum utan fjárl., og fái hann það ekki, fellur á hann þung sök. Hinsvegar virðist mér, að ekki sé hægt að koma fram ábyrgð á hendur ráðh., þegar hann er búinn að fá greiðsluheimild samkv. þessum l., þó að þingið neiti að taka upphæðina upp í fjáraukalög.

Það má vera, að nokkur trygging sé í því, að andstæðingar stj. séu í n., en um svo fámenna n. er ekki gott að vita nema samtök yrðu um einhverja greiðslu, sem meiri hl. þings vildi ekki samþ. Ég hygg því, að hæpið sé, að þetta nái tilgangi sínum. Hinn neita ég ekki, að heppilegt væri að finna eitthvert form fyrir þessu, þótt mér finnist það ekki koma fram í frv.

Í sambandi við þetta vil ég geta einnar mikillar greiðslu, sem fram hefir farið í sambandi við jarðskjálftana nyrðra í sumar. Þar þurfti skjótrar hjálpar við. Samskot voru hafin og það talið nauðsynlegt, að ríkisstj. hlypi undir bagga, og leitaði stj. þá samþykkis miðstj. flokkanna um þessa greiðslu. Ég álít þessa aðferð heppilega, og a. m. k. kemur hún ekki í bága við stjskr., en það finnst mér 2. gr. þessa frv. gera. Ég legg því til, að þessu máli verði vísað til stjórnarinnar.