11.10.1934
Efri deild: 8. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í C-deild Alþingistíðinda. (4788)

42. mál, jarðræktarlög

Jón Baldvinsson:

Þau ummæli hv. 10. landsk., er hann hafði í niðurlagi ræðu sinnar, gefa mér tilefni til að segja nokkur orð. Hv. 10. landsk. hafði orð á því, að sú stjórn, sem hefði ráð á að veita fé til atvinnuaukningar í kaupstöðunum, ætti einnig að hafa ráð á nokkrum fjárstyrk til atvinnuveganna. Í þessum orðum fólst eftirtala á því fé, sem lagt hefir verið fram af skornum skammti til atvinnubóta við sjávarsíðuna.

Annars þykir mér undarlegt, að þessi hv. þm. skuli nú, þegar hann hefir minni ráð og völd en áður, koma fram með þetta frv. og gera kröfur f. h. bænda, en láta algerlega undir höfuð leggjast að bera þær fram meðan hann hafði mikil ráð á þingi, var meira að segja landbúnaðarráðh. og hafði bak við sig 30—40 þm. Þá gleymdi hann að bera fram þessar till. sínar, eða lét undir höfuð leggjast. Virðast þessar kröfur því frekar fram komnar af honum til að sýnast, en ekki í því skyni, að hann búist við að geta komið þeim fram. Ég vil vara hv. þm. við því, að vera með eftirtölur (ÞBr: Það er ekki satt, að ég hafi verið með eftirtölur.) um veitingu fjár til atvinnubóta í kaupstöðum; það styður ekki þær till., sem hann vill nú koma fram. Hitt má vera, að atvinnubótafé hafi ekki ávallt verið varið skynsamlega eða notað á heppilegum tíma, en það hefir aldrei eða sjaldnast verið lagt fram fyrr en óhjákvæmilegt var að veita það, og þá ekki ávallt hentugt verkefni fyrir hendi. Atvinnuleysið í kaupstöðum skapast ekki að alllitlu leyti af hinum sívaxandi fólksstraum þangað, og ekki hefir enn verið unnt að fá hv. 10. landsk. eða samherja hans til þess að ljá stuðning nýbýlamálinu, sem þó miðar að því að skapa varanlega atvinnu og mundi að nokkru draga úr aðstreymi fólks til kaupstaðanna.

Að lokum vil ég endurtaka það, að mér finnst eðlilegra, að hv. þm. hefði gert meira meðan hann var ráðh., en ekki geymt tillögur sínar, þar til hann var orðinn áhrifa- og valdalaus maður á þingi.