13.12.1934
Efri deild: 60. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í C-deild Alþingistíðinda. (4855)

88. mál, yfirstjórn nokkurra ríkiseigna í Ölfusi

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Ég heyrði ekki ræðu hv. 2. þm. Rang., en ég vil þó víkja nokkuð að síðasta atriði hennar, um leiguna á þessum ríkiseignum eða hluta af þeim.

Það hefir jafnan ríkt skoðanamunur milli okkar og íhaldsmanna um þetta mál. Íhaldsmenn stóðu sem fastast gegn kaupunum, en við vildum kaupa jarðbitann og landið í kringum hann til almenningsnota. Nú þegar kaupin eru um garð gengin og enginn ágreiningur lengur um það, að þau hafi verið góð og hyggileg vegna hinna miklu framtíðarmöguleika, sem jarðhitinn felur í sér, viljum við nota hitann og landið til almenningsheilla, en ekki leigja það út til einstakra manna í almennum skilningi, eins og nú er stefna og vilji íhaldsmanna. Það má annars geta um það í þessu sambandi, að íhaldsmönnum hefir farið mjög fram í skilningi sínum á gildi jarðhitans síðan þeir fjandsköpuðust gegn kaupunum á Reykjatorfunni, því að nú falast íhaldsmenn eftir hverri heitri holu í grennd við Rvík og jafnvel uppi í Hengli, og er þetta sagt þeim til lofs, en ekki lasts.

Ég vil leiðrétta það atriði í umsögn Sigurðar búnaðarmálastjóra, að ég hafi nokkurntíma lofað honum landi úr þessum ríkiseignum á leigu æfilangt. Ég skal nú leiða að þessu hin almennu rök. Ég hefi alltaf verið því fylgjandi, að jarðir þessar ættu að vera almenningseign og þær ætti að nota til almenningsgagns. Ég gerði allt, sem ég gat, til þess að fá Reykjakot laust úr ábúð, og má nærri geta, hvort ég hefi gert það í því skyni að leigja landið aftur til 75 ára. (PM: Skrökvar Sigurður búnaðarmálastjóri þá þessu?). Já, það er með öllu ósatt, að ég hafi gefið honum slíkt loforð. Því, sem eftirmaður minn gerði í þessu máli, get ég ekki borið ábyrgð á. Hv. 2. þm. Rang. má trúa um mig hverju sem hann vill, en svona er þessu farið, enda er það alveg í samræmi við fyrri stefnu mína í málinu. Sigurður búnaðarmálastjóri talaði einhverju sinni um það við mig í spaugi að fá blett til ræktunar handan við Varmá til skamms tíma. Slíka notkun landsins taldi ég eðlilega, en þó var ekkert frekar í þessu gert í minni stjórnartíð. Eftir að ég lét af stjórn var Reykjakot leigt til lífstíðar þvert á móti okkar stefnu. Ef Sigurður búnaðarmálastjóri hefði látið sér nægja að fá blett um stuttan tíma, eins og hann stakk upp á við mig í spaugi, hefði ekkert verið við það að athuga. Enginn hefði verið að finna að því, að landið væri ræktað, en hitt var þvert ofan í stefnu okkar og tilgang, að leigja landið til 75 ára.

Ég hefi ekki lagt sérstaka áherzlu á að hraða þessu máli, en þykir þó gott, að það skyldi komast til 2. umr. En á næsta þingi mun ég ekki sætta mig við slíkan seinagang. En ég tel, að sá grundvöllur, sem fengizt hefir með áliti meiri hl., nægi í bili, og því hefi ég ekki komið með neinar brtt. Hinsvegar mun ég leggja áherzlu á það, að málið verði tekið fyrir í byrjun næsta þings. En með þeirri viðbót, að ekki mætti reisa mannvirki á löndunum án leyfis, væri þetta mál komið á skynsamlegan grundvöll fyrir það opinbera og á hreinan grundvöll gagnvart þeim mönnum, sem þarna eiga hlut að máli, þannig að þeir verði að víkja, þegar ríkið þarf landsins með, gegn sanngjörnum skaðabótum fyrir mannvirki og bætur á landinu. Og það verður áður en 75 ár eru liðin, að ríkið þarf á þessu landi að halda. Þróunin á þessum tímum gengur örar en svo.

Ég fjölyrði ekki meira um málið að sinni. Ég lít svo á, að verið sé að undirbúa málið fyrir næsta þing og með áliti meiri hl. allshn. sé lagður grundvöllur, sem þá verði hægt að byggja á.