20.12.1934
Neðri deild: 65. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í C-deild Alþingistíðinda. (4954)

154. mál, hafnarlög fyrir Siglufjarðarkaupstað

Guðbrandur Ísberg:

Út af hafnarlagafrv. því, sem hér liggur fyrir, skal ég ekki hafa mörg orð. Það er aðeins eitt ákvæði í 10. gr. frv., sem ég ætla að gera hér að umtalsefni, að gefnu tilefni. Snemma á þessu þingi flutti ég frv. um bæjargjöld á Akureyri, þess efnis, að bæjarstj. væri heimilt að leggja vörugjald á þær vörur, sem fluttar væru að og frá Akureyri. Þetta frv. var drepið við 2. umr. mjög svo harkalega með öllum atkv. stjórnarflokkanna. Þar var þó ekki farið fram á annað en lítilfjörlega hækkun á vörugjaldinu. Í þessu frv. er farið fram á það sama, bara í stærri stíl. Út af fyrir sig er ekkert við því að segja, þó að stefnubreyt. sé orðin hjá þessum mönnum, að koma með þetta nú, þó þeir fyrir stuttu síðan væru á móti því, og skal ég ekki setja mig upp á móti því, að þetta verði samþ. En ég vildi aðeins benda á mismuninn í afstöðu þessara manna, sem er harla einkennilegur. Ég benti á í sambandi við mitt frv., að það var flutt eftir einróma beiðni bæjarstj. á Akureyri. Þar hreyfðu flokksmenn þeirra í bæjarstj. ekki mótmælum, heldur samþ. að fara fram á slíka heimild. Þessir hv. þm. hafa því gert sig að dómurum yfir flokksmönnum sínum, sem hlutu að þekkja betur til, skilja og vita betur, hvers þurfti. Yfir þessum flokksmönnum sínum felldu þm. stjórnarflokkanna þann dóm, að þetta væri bjánaskapur.

Ég vil benda á, að sá maður, sem af hálfu jafnaðarmanna gekk fram fyrir skjöldu gegn þessu frv. mínu, var hv. þm. Ísaf., einmitt sá maður, sem er form. sjútvn., sem þessu máli var vísað til. Hv. n. hefir skilað áliti, og maður skyldi nú ætla, að hv. þm. Ísaf. hefði ekki skrifað undir það mál., sem lýsir samþ. á frv., einmitt sá hv. þm., sem talaði af mestum móð gegn slíku ákvæði fyrir nokkrum dögum, og er þar að auki form. þessarar nefndar. (FJ: Vill ekki hv. þm. lesa nál.?). Þegar menn sjá nú nafn hana á þskj. 883, mætti halda, að hann hefði skrifað undir með fyrirvara, en það er ekki heldur svo, eða þá að fyrirvarinn fælist í nál. sjálfu, eða áskilinn réttur til að bera fram brtt. Ég hefi ekki heldur orðið var við það, og engin brtt. frá honum er komin fram. Ég vil sérstaklega benda á, að engin hliðstæða er í 10. gr. hafnarl.frv. fyrir Siglufjörð og í frv. því um bæjargjöld á Akureyri, sem ég bar fram. Þar var gert ráð fyrir hækkuðu gjaldi á öllum vörum, sem fluttar væru að eða frá Akureyri, en hér eru skildar undan þær vörur, sem bæjarbúar sjálfir nota. Þetta á því að dynja yfir þá menn, sem stunda atvinnu á Siglufirði yfir síldveiðitímann, en Siglfirðingar hafa nú ekki getað undanfarið náð til með útsvarsálagningu vegna þrengdra ákvæða útsvarslaganna. Þá er enn atriði, sem ég vil minna á sérstaklega og hv. þm. Ísaf. gerði að umtalsefni í sambandi við mitt frv., og með nokkrum rétti, að ef það ætti að gilda fyrir Siglufjörð, kæmi Síldarverksmiðja ríkisins til með að borga tugi þúsunda í vörugjald. Taldi hann þetta mestu óhæfu, og í því er ég honum sammála. Taldi hann nægilegt, að ríkið legði fram millj. kr. til að auka atvinnu í bænum, þó það fari ekki að borga tugi þúsunda í svona skatta. Í þessu er ég honum líka sammála. Þau fáu ár, sem ég hefi setið á þingi, hefi ég orðið var við ýmiskonar hringsnúning, en ekkert í líkingu við þetta. Vantar ekkert annað en að hv. 1. landsk. hefði líka átt sæti í n. og skrifað undir nál. fyrirvaralaust.

Ég get ekki gengið framhjá því, sem hv. þm. Barð. bar blákalt fram, að í mínu frv. hefði vörugjaldið verið ótímabundið, en það er ekki rétt, því í frv. var gert ráð fyrir, að lögin gildi aðeins til ársloka 1937. En fjhn. lagði til, að því yrði breytt, þannig; að lögin giltu aðeins til ársloka 1936, og gekk ég inn á þá brtt. Og svo segir hv. þm., að vörugjaldið hafi verið ótímabundið. Hvar hefir þessi hv. þm. þskj., eða les hann þau ekki?