26.10.1934
Neðri deild: 20. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í D-deild Alþingistíðinda. (5063)

86. mál, Vestmannaeyjavitinn á Stórhöfða

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Ástæðurnar fyrir þessari till. eru tilfærðar á þskj. 143. Hún er komin fram vegna áskorana frá mörgum vélbátaformönnum í Vestmannaeyjum, sem kvarta undan, að ljósmagn Stórhöfðavitans sé ekki orðið þeim nægilegt. Lampi vitans er nú orðinn nokkuð gamall, og er ljósið aðeins olíuljós. Hefir sjósókn þarna mikið breytzt og aukizt síðan vitinn var reistur. Þykist ég því vita, að hæstv. ríkisstj. og aðrir, sem hlut eiga að máli, vilji gera sitt til að verða við þessari ósk.

Vegna þess að breyt. á ljóstækjum vitans mundi hafa einhvern kostnað í för með sér, vil ég taka það fram, að það er ekki ætlazt til, að til þess verði varið öðru fé heldur en því, sem í fjárl. er ætlað til viðhalds vita. Hitt er annað mál, að það fé, sem ætlað er til vitamála í fjárl., mun vera of lítið, og kemur það atriði til athugunar á sínum tíma. — Ég býst við, að rétt sé að athuga þetta mál í n., og legg því til, að því verði vísað til hv. sjútvn. og umr. frestað.