19.10.1934
Neðri deild: 14. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

11. mál, einkasala á áfengi

Frsm. meiri hl. (Sigfús Jónsson) [óyfirl.]:

Í þessu frv. eru breytingar á 1. um einkasölu á áfengi, þar sem bætt er við nokkrum vörutegundum. Breytingarnar eru í því fólgnar, að í 1. gr. laganna er bætt inn heimild fyrir ríkisstj. eina til að flytja inn og framleiða ilmvötn, hárvötn, andlitsvötn, bökunardropa, kjarna (essensa) til iðnaðar og svo pressuger. Svo er bætt inn í 2. gr. l. eftir orðunum „Ríkisstjórnin setur nánari reglur um áfengissóluna“: „svo og um sölu á erlendum vörutegundum, sem inn eru fluttar eða framleiddar hér, og lög þessi ná til“. Er það eðlileg viðbót, sem stafar af 1. gr.

Við 4. gr. er gerð sú breyt., að bann við sölu ríkisins til sjúkrahúsa er fellt niður. Það virðist ekki ástæða til að neyða sjúkrahúsin til að kaupa lyf annarsstaðar frá en af ríkinu.

Þá er á 7. gr. l. gerð sú breyting eftir frv., að í stað 25-75% álagningar er gert ráð fyrir, að ríkisstj. ákveði álagninguna. 9. gr. l. er breytt í samræmi við 1. gr., til þess að nægar birgðir séu af þeim vörum, sem þar eru taldar; eru það auk áfengis og vínanda ilmvötn, hárvötn o. s. frv. Breyting á 12. gr. er sömuleiðis afleiðing af l. gr., og auk þess það nýmæli, að Áfengisverzluninni er gefinn einkaréttur til að framleiða hér á landi þessa hluti. Aðalástæður fyrir þessu frv. eru tvær. Önnur er sú, að eftirlit með iðnaðaráfengi verður léttara með því að hafa innflutning þess í höndum ríkisvaldsins, enda hefir Áfengisverzlunin einkarétt til þess að framleiða bökunardropa, hárvötn og fleira, sem spíritus er notaður í. Áfengisverzlunin hefir sérstaklega góða aðstöðu til þessarar starfsemi, þar sem hún hefir sérstakan efnafræðing og dálitla efnarannsóknarstarfsemi. Hin ástæðan fyrir frv. er sú, að það veitir ríkissjóði einhverjar aukatekjur. Ég býst að vísu ekki við, að þær verði miklar. því ég held, að sala á þessum vörum hér á lundi sé lítil, og ætti það því ekki að koma mikið í bága við hag þeirra einstaklinga, sem framleitt hafa þessa vöru.

Meiri hl. fjhn. leggur til, að frv. þetta verði samþ. óbreytt. Hinsvegar hefir minni hl. n. lagt til, að það verði fellt, og mun hann færa fram ástæður fyrir því áliti sínu. Ég vil því fyrir hönd meiri hl. n. óska þess, að hv. d. samþ. frv. og vísi því til 3. umr.