17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

23. mál, tilbúinn áburður

Forseti (JörB):

Hv. þm. G.-K. minntist á þetta við mig núna fyrir stuttu, þegar ég gat þess, að kvöldfundur yrði haldinn. Ég viðurkenni fullkomlega, að það er í alla staði eðlilegt, að flokkarnir þurfi að halda fundi, og þá náttúrlega helzt á kvöldin. Mér var það úr minni liðið, að Sjálfstfl. hefir á undanförnum þingum haft sína flokksfundi þetta kvöld, en ég mun taka, eftir því sem mér framast er unnt, fullt tillit til þessara óska framvegis, eftir að mér hefir verið á þetta bent. Í þetta sinn vil ég samt vænta þess, að hv. þdm. komi á fund, af því að ég hefi lofað því, að fundur skuli haldinn í kvöld, og seint hefir sótzt með afgreiðslu mála í dag.