08.10.1934
Efri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (711)

27. mál, sláturfjárafurðir

Magnús Guðmundsson:

Ég skal strax taka það fram, að ég stend ekki upp til þess að mæla á móti þessu frv. og ekki heldur til þess að ásaka stj. fyrir að gefa út bráðabirgðalögin um kjötsöluna. Hefði ég verið áfram í stj., hefði ég verið með í því að gefa út lög í þessum anda.

Það er þess vegna hinn mesti misskilningur hjá hæstv. forsrh., þegar hann talar um, að Sjálfstfl. í heild sé eitthvað andstæður þessu máli. Ég get ekki séð, að hann hafi neina heimild til að bendla heilan flokk við andstöðu gegn máli, þótt sézt hafi í blöðum talsvert hvassorð „kritik“ á það, hvernig lögin eru framkvæmd. Það er svo um l. eins og þessi, að þau eru að mestu leyti heimildir, og það veltur sannarlega mest á því, hvernig þær heimildir eru framkvæmdar. Og ég tel satt að segja of snemmt að segja um, hvernig framkvæmdir reynast í þessu máli. Mér er vel ljóst, að með setningu slíkra laga sem þessara eru rofin ýms sambönd, sem áður hafa verið. En hve mikla þýðingu það kann að hafa, það þori ég ekki enn að segja um; því verður reynslan að skera úr. En mér virðist, að hér hafi staðið þannig á, að það þyrfti að gera ráðstafanir til þess, að kjötverð yrði ekki lægra en svo, að bændur mættu við una. En ég get látið þess getið hér, að í mín eyru hafa bændur ýmsir í Norðurlandi haft talsvert út á framkvæmd laganna að setja. Þeim þótti í byrjun verðið of hátt, og þeim þykir lokaverðið of lágt. Um þetta ætla ég ekki að segja mikið frá eigin brjósti. Ég held það sé vandratað meðalhófið, og vil ég ekki að fyrra bragði álasa n., sem farið hefir með málið. En hitt er óhæfilegt, að tala um nokkur flokkamörk í þessu máli, því að þau eru ekki til. Það væri undarlegt, ef Sjálfstfl., sem telur meðal sinna kjósenda meira en helming allra bænda, vildi skóinn niður af þeim. Því trúir enginn. Hinu er heldur ekki hægt að neita, að það er ekki nema eðlilegt, að þeir, sem vöruna kaupa, vilji gjarnan fá hana sem lægsta, og að þeir haldi - þótt það máske sé að ástæðulausu -, að varan sé of há. Ég vil taka undir það með hæstv. ráðh., að verðlag á kjöti, hefði vafalaust hækkað í haust án allrar íhlutunar, samkv. verðlagi á öðrum vörum. En hve mikil hækkunin hefði orðið, það getur enginn sagt. En ef ekki dregur úr kjötverzluninni, þá reynist verðið ekki of hátt, því að markið var að hafa kjötið eins hátt og fært var án þess að rýra markaðinn.

Ekki ætla ég að ræða neitt um verksmiðjueigandann á Álafossi, enda hygg ég, að kjötmarkaðurinn í landinn standi ekki eða falli með því, hvort hann hefir etið kjöt í Borgarnesi 1930 eða ekki.

Eitt undrar mig mjög í sambandi við þessi l., og það er, að stj. hefir talið nauðsynlegt að fella úr frv., að Búnaðarfél. Íslands ætti umboðsmann í verðlagsnefnd. Ég vildi fá að heyra ástæðu hæstv. ráðh. fyrir þeirri ráðstöfun.

Með því að ég er hræddur um, að ýms bein sambönd á milli framleiðenda og neytenda verði rofin með frv. þessu, ef að lögum verður, þá vildi ég skjóta því til hv. landbn., hvort hún myndi ekki geta fundið einhverja leið til að vernda þessi sambönd, án þess þó að rýra að tilfinnanlegu leyti þann tilgang, sem vakir fyrir öllum í þessu máli. Ef hægt væri að finna slíka leið, þá væri það þörf ráðstöfun.