08.10.1934
Efri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (721)

27. mál, sláturfjárafurðir

Pétur Magnússon:

Hæstv. ráðh. spurði mig, hver ráð ég sæi til þess, að ákvæði verðlagsnefndarinnar kæmu að gagni, án þess að lagðar væru hömlur á frjáls viðskipti. Ég vil svara honum með því, að ef tryggt yrði, að ekki væri flutt of mikið kjöt á einstaka sölustaði, er engin hætta á því, að verðlagsákvæðin yrðu brotin, þó að einkaviðskipti væru leyfð. Eðlileg tilhneiging bændanna til að gæta hagsmuna sinna mundi koma í veg fyrir það, að þeir byðu verðið hver niður fyrir öðrum. Og engin hætta er á því, að þeir mundu selja einstökum mönnum fyrir lægra verð en þeir gætu fengið í sláturhúsum. Þetta er því engin ástæða til þess að banna milliliðalaus viðskipti, - og þau myndu ekki auka á nokkurn hátt hættuna á ákvæðisbrotum.