19.10.1934
Efri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (734)

27. mál, sláturfjárafurðir

Jón Auðunn Jónsson:

Það andaði nú heldur kalt frá hæstv. landbrh. til þeirra till., sem hér eru fram komnar til umbóta á frv.

Mér finnst það ekki geta dulizt neinum, að innlendi markaðurinn hljóti að aukast við það, að losað sé um þær hömlur, sem frv. leggur á kjötverzlun í einkaviðskiptum. Verði með öllu bannað að láta kjöt í vöruskiptum, eins og víða hefir tíðkazt hingað til, er innanlandsmarkaður fyrir kjöt þar með stórlega rýrður. Ég hefi áður lýst þeim vöruskiptum, sem átt hafa sér stað milli sveitabænda og sjávarbænda þar, sem ég þekki til, og ég er þess fullviss, að verði frv. að lögum eins og það er, hljóta þau viðskipti að rýrna stórkostlega. Með brtt. minni þykist ég hafa gengið langt til móts við þá, sem ekki vilja hafa frjálsa verzlun, með því að gera ráð fyrir sölufélagi 12 manna eða fleiri, til þess að slík viðskipti megi fram fara. Kjötverðlagsnefnd er ekki svo kunnug, að hún geti ákveðið, hvar er nauðsynlegt að gefa verzlunina frjálsa og hvar ekki. Mér er t. d. kunnugt um, að í haust var sótt um undanþágu til heimaslátrunar fyrir bónda, sem tók það heilan dag að reiða 30 dilka yfir illt vatnsfall, sem hann þarf yfir að sækja, en honum var neitað um slíka undanþágu. Þessi heimild til kjötverðlagsnefndar til að veita einstökum bændum undanþágu, eins og hæstv. forsrh. lagði til, er því einber hégómi, sem lítið eða ekkert bætir úr þeim vanda, sem hér er um að ræða. Þegar bóndinn, sem hér um ræðir, kom með dilkana í kaupstaðinn, varð helmingurinn af kjötinu nr. 2, vegna þess hvað það var blettótt og marið. Þessi maður hefir haft undanfarið gott fé, og hefir hann t. d. aldrei fengið minna en 33 pund í meðaltali af dilkum sínum. Hann þarf að selja um 150 fjár, en hann fær ekki leyfi til að slátra heima, eins og hann áður gerði. Ef kjötverðlagsn. hefði þekkt allar ástæður, sem þar eru fyrir hendi, þá má vera, að hún hefði leyft það í þessu tilfelli, en þrátt fyrir að henni var skýrt frá öllum ástæðum þá gerði hún það ekki. Hinsvegar ætlast ég til þess, að bændur, sem eiga erfiða aðstöðu, geti slegið sér saman og myndað sölufélag. Ég skil ekki, og hefi ekki heyrt neina skynsamlega ástæðu fyrir því að bændur megi ekki mynda með sér sölufélag til þess að selja afurðir sínar. Þeir þurfa ekki að mynda lögskráðan félagsskap, því þeir þurfa ekki að hafa neina sameiginlega ábyrgð á fjárreiðum, heldur ætla þeir aðeins að selja afurðir sínar í félagi. Mér þykir næsta undarlegt, ef bændur í þessari hv. d. fremur en annarsstaðar vilja setja bændum slíka kosti, að þeir ekki megi mynda slíkan félagsskap sér til hagsbóta. Og náttúrlega er það undarlegur hugsunarháttur, ef það á að neyða bændur, sem áður seldu milliliðalaust, til þess að selja kjöt sitt í gegnum milliliði, og fella afurðir þeirra í verði með því móti að setja þeim milliliðakostnað með lögum. Það er engin hætta á því, að framboðið verði meira af þessari sök, og allra sízt ef brtt. hv. 2. þm. Rang. um að kjötverðlagsn. geti ákveðið, hvað mikið kjöt megi flytja milli verðlagssvæða, verður samþ., og þegar ákveðið er lágmarksverð á þessari vöru, þá er engin hætta á, að bændur fari niður fyrir það sér í skaða, en eigi þar að auki á hættu að fá þær sektir, sem við slíkum brotum eru lagðar. Ég veit, að það hefir verið svo á þessu hausti, vestur frá a. m. k.. að þeir, sem keyptu kjötið, hafa viljað í öllum tilfellum fá sannanir fyrir, að verðjöfnunargjaldið væri greitt.

Það hefir nokkuð verið um það deilt, hvort bændum sé frjálst eftir frv. að selja lifandi fé til slátrunar. Ég veit, að það mun hafa verið framkvæmt að einhverju leyti á sumum stöðum á landinu, og ég vil út af því beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh., sem hefir gefið út þessi bráðabirgðalög, hvort hann áliti heimild til þess samkv. þessum lögum að selja lifandi fé til slátrunar.