25.10.1934
Efri deild: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (755)

27. mál, sláturfjárafurðir

Einar Árnason:

Hv. 2. þm. Rang. og hv. l. þm. Reykv. voru hér með nokkra útreikninga um kjötverðið. Ég játa, að annaðhvort hefi ég ekki skilið þá eða að eitthvað er bogið við reikningana, og óska ég að fá frekari skýringu, ef ég hefi misskilið þá. Hv. 2. þm. Rang. bar saman 3. flokks kjötverð og verð á betra saltkjöti og komst að þeirri niðurstöðu, að verð á þessu 3. flokks kjöti hér í Rvík yrði lakara en saltkjötsverð, þegar búið væri að veita 15 aura verðuppbót á það. Því er til að svara, að það er ekki sanngjarnt að bera saman 3. flokks kjöt og bezta kjöt.

Hv. 1. þm. Reykv. hélt áfram útreikningi, sem byggður er á verðálagningu þeirri, sem hv. 2. þm. Rang. gerði ráð fyrir. Hann tekur t. d. 12 kg. skrokk og segir, að hann geri, með þeirri verðálagningu, sem hv. 2. þm. Rang. talar um, um 11 kr. Það er ekkert við það að athuga. En svo kemst hann að þeirri niðurstöðu, að ef eigandi 12 kg. skrokks hefði fengið að selja hann milliliðalaust, hefði hann fengið 16 kr. fyrir hann. Hann tapaði því 5 kr. á þessum millilið, sem skapaður væri með þessu frv. Mér þætti vissara að fá þennan útreikning betur rakinn sundur, því að ég skil hann ekki og get ekki trúað, að þessi mismunur geti staðizt.

Ég held, að ég hafi tekið rétt eftir því, að hv. 1. þm. Reykv. gleymir fyrst og fremst í útreikningi sínum, að hv. 2. þm. Rang. reiknar með því, að búið sé að kosta 1 kr. upp á skrokkinn, til þess að slátra kindinni. Ég tók svo eftir, að hv. 2. þm. Rang. teldi 8 aur. koma á hvert kg. (PM: Það er 80 aurar á kind). Það er ekki alltaf jafnmikið fyrir kindina. (Forsrh.: Það er alltaf reiknað sama á kindina hér). En það kemur alltaf það sama á kg. Þar munar 1 kr.

Í öðru lagi skildist mér, að hv. 1. þm. Reykv. áliti, að ef bóndi fengi leyfi til þess að selja kjöt beint, þá ætti hann að fá smásöluverð fyrir skrokkinn hjá kaupanda. Af því hv. 1. þm. Reykv. bætti 20% ofan á útsöluverð, þá er ekki hægt að koma skrokknum út á 16 kr., nema með því móti, að reiknað sé 20% smásöluverð á skrokk. Heldur hv. þm., að nokkur kaupandi kaupi skrokk af mér fyrir meira verð en hann getur fengið skrokkinn fyrir í sláturhúsi? Þetta er mesta fjarstæða. Kaupandi gefur mér sama verð og hann gefur í sláturhúsi, og það er ekki 16 kr., heldur 13,50 kr. Svo er 1 kr., og þá er mismunurinn aðeins 1.80 kr.

Nú vildi ég fá að vita hjá hv. 1. þm. Reykv., hvort mismunurinn er í raun og veru meiri en l.80 kr. Mér finnst þessi útreikningur hv. þm. vera töluvert varhugaverður.