30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

27. mál, sláturfjárafurðir

Garðar Þorsteinsson:

Ég skal ekki tala lengi, en ég mun fara nokkrum orðum um það mál, sem hæstv. forsrh. hefir leitt hér inn í umr. Ég held, að hæstv. forsrh. hafi talað af sér áðan, þegar hann sagði, að það væru dómstólarnir, sem ættu að löggilda mjólkurlögin, en máske hefir honum orðið mismæli, því að það stendur berum orðum í 1. gr. 1. frá 1933, að það sé atvmrh., sem annast það. Út af þessu vil ég taka það fram, að í þessari gr. er það gefið á vald ráðh., hvernig þessi viðurkenning á mjólkurbúum fer fram, en það er ekki tekið fram, að auglýsingu þurfi um það, hvorki í Lögbirtingablaðinu eða öðrum blöðum. Hæstv. ráðh. sagði, að það væri venjulegt að auglýsa, og get ég gengið inn á það, en ef hann vill eingöngu byggja vörn sína í þessu máli á því, að það hafi ekki verið auglýst og þess vegna hafi átt að sýkna Kristján Jóhannsson, þá verður hann líka að ganga inn á það, að það var þegar fengin viðurkenning fyrir mjólkurbúunum með bréfi atvmrh. í des. 1933. Það er því aðeins birtingin á þessari löggildingu, sem hæstv. ráðh. telur vanta. En það er vitanlegt, að hæstv. ráðh., sem þá var lögreglustjóri, var kominn í sjálfheldu í þessu máli, og það varð til þess, að hann sýknaði þennan umrædda mann. Vitanlega er það ljóst, að það var miklu hægri leið fyrir hæstv. ráðh. að löggilda búið á ný heldur en að skjóta dóminum til hæstaréttar, en það, að hæstv. ráðh. kvað upp sýknudóm yfir þessum manni, sannar ekki það, sem það átti að sanna í þessu máli, að það sé rétt, en hæstv. ráðh. gat náð sama takmarki með annari leið, sem sé að löggilda búið á ný.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði ekki séð frumrit bréfsins frá 29. des. 1933. Bréfið var mjög langt og ég gat alls ekki skrifað það upp, en hinsvegar tók ég orðrétt upp niðurstöðuálit Gissurar Bergsteinssonar og Guðmundar Sveinbjörnssonar, og loks samþykki þáv. ráðh., Magnúsar Guðmundssonar. Og hæstv. ráðh. viðurkennir að hafa fengið þetta bréf og að í því bréfi hafi staðið, að hann ætti að fylgja skýrum ákvæðum laganna, en svo spyr hæstv. ráðh.: „Hvað eru skýr ákvæði laganna?“ Ef hæstv. ráðh. var í vafa um, hvernig ætti að skýra þetta, þá gat hann snúið sér til ráðuneytisins, og það er víst, að úr því að bréfið hljóðaði þannig, sem ég ekki rengi, að lögreglustjóri hafi átt að framfylgja skýrum ákvæðum laganna þá hefir hæstv. ráðh. álit dómsmrn. í þessu máli, og hann hefir sitt eigið álit, sem felst í forsendum hans fyrir niðurstöðu dómsins yfir þessum manni. En hæstv. ráðh; tekur það ráð, eftir því sem hann upplýsir nú, að hann segir: „Ég var ekki alveg viss um, að þessi niðurstaða væri rétt, og ég vildi vera öruggur og bíða eftir dómi hæstaréttar“. Ég vil benda á, að það er þessi viðurkenning frá hæstv. ráðh., sem ég hefi beðið eftir og vil leggja áherzlu á. En um hvað er deilt í þessu máli? Það er deilt um það, hvor eigi sökina á því, að lögunum var ekki framfylgt, fyrrv. dómsmrh., Magnús Guðmundsson, eða fyrrv. lögreglustjóri, Hermann Jónasson. En nú hefir núv. ráðh., sem þá var lögreglustjóri, upplýst, að hann hafi ekki framfylgt lögunum, en viljað bíða eftir dómi hæstaréttar. Það er því augsýnilegt, að hann vill skella skuldinni á fyrrv. dómsmrh. En ég vil benda hæstv. ráðh. á það, að hann virðist blanda saman tveimur bréfum - annað frá 29. des., en hitt frá 21. júlí -, en þau eru viðvíkjandi dómi á 2 mönnum, en ekki sama manninum.

Hæstv. ráðh. sagðist hafa gengið eftir fyrirskipun frá þáv. ráðh. um það, hvernig hann ætti að haga sér í þessu máli. Nú er upplýst um aðeins eitt símtal þann 19. maí milli lögreglustjóra og ráðuneytisins um þetta mál, og ennfremur er það vitað, að ráðuneytið hefir alltaf viljað framfylgja þessu ákvæði laganna. Hafi því lögreglustjórinn gengið eftir því að fá svar, þá gat það ekki gengið nema í eina átt.

Viðvíkjandi þessu vottorði frá Jónatan Hallvarðssyni, þá vil ég halda því fram, að það sé að efni til rangt, þó ég haldi því ekki fram, að það hafi verið vísvitandi. Jónatan skellir skuldinni á þáv. ráðh., Magnús Guðmundsson, en Magnús Guðmundsson segist ekki hafa viðhaft þessi ummæli, og ég verð að álíta, að ég hafi frekari ástæðu til þess að trúa honum, einkum með tilliti til þess, hvernig hans fyrra bréf er stílað.