05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

27. mál, sláturfjárafurðir

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Ég get verið sammála hv. þm. Ak. um það, að vitanlega á að gæta hófs um verðlagningu á kjötinu, og það hefir líka verið gert. Það liggja fyrir Hagtíðindi fyrir árið 1934, sem útbýtt hefir verið meðal þingmanna. Í þeim sést, að kjötverðið í Rvík. miðað við verðlag 1914, hefir í sept. 1933 haft vísitöluna 224, en í sept. 1934 er vísitalan 221. Þetta kemur til af því, að smásöluálagningin var í fyrra 30 til 35%, en nú er hún ekki nema 15%. Þrátt fyrir það, þó verðið sé lægra nú í smásölu, þá fá bændur hærra verð fyrir kjötið en í fyrra. Hv. þm. er því alveg óhætt að vera með frv. þess vegna, því það er allt til þess gert að hafa verðið til neytenda sem allra lægst. En sá góði árangur, sem náðst hefir í þessu efni, hefir fengizt fyrir það, að kjötverðlagsnefnd er skipuð fulltrúum frá báðum aðilum, bæði seljendum og neytendum. Brtt. hv. þm. V.-Húnv. og hv. 2. landsk., um að skipa kjötverðlagsnefnd eingöngu úr hópi framleiðenda, getur því alls ekki komið til greina, því hún mundi verða til þess eins að eyðileggja jafnvægi nefndarinnar, því það er ákaflega hætt við, að svo einlit n. mundi ekki gæta hófs í álagningu. Það er alveg sama að segja um brtt. hv. þm. A.-Húnv. og hv. þm. Ak., um að fjölga nm. í 7 og bæta við 2 fulltrúum frá seljendum. Það er ákaflega hætt við því, að slík viðbót raski hlutfallinu um of. Þessir hv. þm. leggja til, að Verzlunarráð Íslands leggi til fulltrúa í n., til þess að vera fyrir þá kaupmenn, sem slátra fé til sölu innan lands, eins og Samband ísl. samvinnufélaga leggur til mann í n. En þetta er ekkert sambærilegt, eins og ég skal nú sýna fram á. Árið 1933 var slátrað 406000 fjár á öllu landinu. Af því var slátrað hjá kaupmönnum milli 80 og 90 þús. fjár, og þegar frá því er dregin slátrun hjá þremur kaupmönnum hér í Rvík og kaupmönnum í Borgarnesi, þá er ekki eftir í hlut annara kaupmanna nema um 40000 fjár.

Ég álít, eins og hv. þm. Borgf., að það sé ekki nein hindrun á því, að þeir, sem fá slátrunarleyfi, geti keypt fé á fæti. En hitt er annað mál, að það er oft illa farið með þessi fjárkaup.

Hv. þm. Borgf. þótti verðjöfnunargjaldið nokkuð hátt og bjóst við að koma með brtt. um það við 3. umr. En ég held, ef það er athugað, hve mikill munur er á saltkjötssölu erlendis, sem nú í haust virðist ætla að verða svipuð og í fyrra, 60 aur. kg., og því verði, sem nýtt kjöt selst fyrir í landinu, þá sjái allir, að það sé ekki mikið, þó verðjöfnunargjaldið yrði 10 aur. Og viðvíkjandi því, hvort ekki geti farið svo, að verðmismunur á kjöti, sem flutt er út úr landinu, og því, sem selt er í landinu, geti orðið svo mikill, að erfitt sé við það að eiga, má ekki gleyma því, að því meiri munur, sem er á kjötsölunni innanlands og því, sem selt er út úr landinu, því nauðsynlegra er það, að möguleikar séu til þess að hafa verðjöfnunargjaldið hátt, ef á þarf að halda.

Ég vona, að menn samþ. frv. eins og það liggur fyrir, en felli brtt. þær, sem fram hafa komið. Ég skal að vísu viðurkenna, að 2. brtt. hv. þm. A.-Húnv. og hv. þm. Ak. gerir frá mínu sjónarmiði ekkert til. En þó er hugsanlegt, að svo gæti farið, ef mörg smásláturfélög mynduðust á svæði, þar sem sláturfélag var fyrir, að þeim, sem utan um gamla félagið standa, geti orðið það of erfitt. Ég er því ekki viss um, að till. sé til bóta.