05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í B-deild Alþingistíðinda. (815)

27. mál, sláturfjárafurðir

Sigurður Kristjánsson:

Það er ekki að undra, þó að hv. þm. V.-Húnv. sé talsvert upp með sér í kvöld, því þetta er víst í fyrsta sinn á þinginu, sem Bændafl. hér í d. kemur óklofinn fram. Það er því ekki undarlegt, þótt hv. þm. byrji hveitibrauðsdagana með talsverðu yfirlæti. Það fer löngum svo, að munaðurinn gerir menn ofsafengna, og hefir það nú sannast á hv. þm. Hann hefir nú gleymt því, að framleiðendurnir þurfa á neytendum að halda fyrir kjöt sitt. alveg eins og hv. þm. V.-Húnv. þurfti að fá neytanda til þess að geta komið blíðu sinni á framfæri. (MT: Húmm!) Hann varð að fá samflokksmann sinn til sameiningar, áður en þetta virðulega afkvæmi, brtt., gæti skapazt. Hv. 6. landsk. tók það réttilega fram, hver fásinna það væri að ætla að útiloka fulltrúa neytendanna úr kjötverðlagsn., og er það hreinasti ofstopi, að framleiðendur skuli þar einir öllu ráða. - Að því marki verður að stefna, að verðlagið hefti ekki sölu kjötsins, en gefi bændum þó sæmilegan arð. Þetta næst bezt með samvinnu neytenda og framleiðenda. Af því að ég er því, að hv. þm. V.-Húnv. sé svo viti borinn, að þetta nýja tilhugalíf hans megni ekki að ræna hann hverri glóru, þá vona ég, að hann sjái sannleikann í þessu máli. En það eimir enn eftir af erfðasyndum Framsóknar hjá þessum hv. þm.; hann er ennþá of bundinn tilhneigingunni að leika fyrir kjósendum sinum tilvonandi, og belgir sig þá út um ímyndaðar bændakröfur, sem í raun réttri eru bændum langt frá til farsældar. Það er víst, að þessi till. yrði málinu bara til bölvunar, eins og það var því til óheilla, að blöð stj. létu fylgja bráðabirgðal. kaldyrði til neytendanna.

En hvað snertir dúfuna, sem minnzt hefir verið á, þá verð ég að játa, að ekki er foreldri hennar fallegt svo sem æskilegt væri, en hún á ekki að gjalda þess, sé eitthvað nýtilegt í henni sjálfri. En það var mesti misskilningur hjá hv. þm. V.-Húnv., að ég hefði verið að tala um fóstureyðingar; ég nefndi þær ekki á nafn. Þetta er alveg öfugt. Það er hann, sem er að hugsa um fóstureyðingar, og hefir ástæðu til þess, - vegna tilhugalífs þess, sem hann nú lifir í.