05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

27. mál, sláturfjárafurðir

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Hæstv. forsrh. sagði, að af því bændastj. hefði verið í Noregi þegar mjólkurlögin voru þar til meðferðar, hefði farið sem fór, að þau voru samþ. Þetta er einmitt alveg rétt. Af því þar var bændastj., unnu bændurnir í deilunni og fengu verðið hækkað. Það ætti þó að vera léttara fyrir okkur hér að halda uppi verði bæði á kjöti og mjólk. Því það sýnist engin ástæða til að rísa á móti því, þegar flestar aðrar vörur hækka, bæði fóðurvörur og annað. Ég er líka viss um, að ef hér hefði verið bændastj., sem skildi réttlátar kröfur bænda, hefði í mjólkurmálinu farið betur en fór. Og í kjötsölunni - svo ég tali um það málið, sem er á dagskrá - vil ég benda á, að samkv. skýrslum hagstofunnar hefir útsöluverð í sept. verið lægra en í fyrra. Þó fengu bændur, sem notuð innanlandsmarkaðinn í fyrra, lægra verð en þeir, sem fluttu út. Það virðist því ástæðulaust að hafa verðið lægra nú. Ef eitthvað hefði sparazt við minni kostnað, átti það að renna til bændanna. Enda hefði það tekizt, ef við. hefðum haft heilsteypta og velviljaða bændastjórn.

Hæstv. forsrh. tók fram, að verklýðsfélögin erlendu skipuðu n. áður en taxar væru ráðnir. En það er eftirtektarvert að nota þá aðferð, sem hér hefir verið gert gagnvart bændum. Það er ekki verið að skipa n. bænda til að ákveða verðtaxtann, heldur þarf að fá sóscíalista til að segja bændunum, hvað þeir eiga eða megi fá. Hvers vegna þurfti að byrja á að draga af bændunum? En sócíalistarnir fá allar sínar kröfur og ganga óbeizlaðir. Hvernig stendur á þessu? Jú, þetta er skiljanlegt, þar sem stj. styðst við sócíalista og hefir sócíalista í stj., enda ráða þeir öllu. En þeir hafa ekki á móti að níðast á bændum, sem engar kröfur hafa gert og engin samtök hafa til að halda uppi því verði, sem þeir þurfa.

Hv. 5. þm. Reykv. sagði, að það þyrfti að afsetja hvers árs framleiðslu með því verði, sem trygging væri fyrir, að hægt væri að selja fyrir. Og skildist mér helzt, að það ætti að gera án nokkurs tillits til þess, hvort bændur fengu það verð, sem þeir þurfa eða ekki. (PHalld: Já, já). En hvaða þýðingu hefir að afsetja vöruna, ef framleiðslan ber sig ekki? Ekki getur það gengið til lengdar. - Þá minntist hv. þm. á mismuninn á skilyrðum til sauðfjárræktar og hélt því fram, að þeir ættu að fá hærra verið, sem dýrari hefðu framleiðslu. Er í samræmi við það, að þeir ættu að fá meira fyrir mjólkina, sem t. d. beita ræktað land eða gefa mikinn fóðurbæti og hafa því dýrari framleiðslu. Annars virðist allt benda til þess, að bændur verði að ganga inn á að skipuleggja framleiðsluna eftir skilyrðum og staðháttum og framleiða á hverjum stað það, sem bezt skilyrði eru fyrir. Einnig mundi þurfa að takmarka magn hverrar vöru eftir sölumöguleikum.

Að lokum vil ég taka fram, að ég skal gjarnan fallast á, og tel enda rétt og sjálfsagt, að bændur beri sjálfir ábyrgð á því, sem gert er í þessu máli. Þetta er gert með brtt. minni um skipun nefndarinnar og því sjálfsagt að samþ. hana. - Ég sé, að hæstv. forseti er orðinn órólegur, og skal ég því láta frekari umr. bíða til morguns.