08.11.1934
Neðri deild: 31. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í B-deild Alþingistíðinda. (840)

27. mál, sláturfjárafurðir

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Það er nú hvorttveggja, að fátt er um manninn hér í deildinni og ég þarf ekki að segja mikið.

Ég vil taka það fram, að tvær samkynja brtt. hafa verið bornar hér fram, og leiðir af því, að hæstv. forseti ber fram aðeins aðra þeirra, hver sem örlög þeirra verða annars við atkvgr. Annars þarf ég ekki miklu að bæta við það, sem hv. þm. Snæf. hefir sagt um þetta efni, því síður, þar sem þegar hefir verið rætt mikið um verðjöfnunarskattinn, bæði hér og í hv. Ed.

Ég vil aðeins taka það fram út af ummælum hæstv. forsrh. og fleiri hv. þm. hér í d., að þó að verðjöfnunarskattur sé að vísu nauðsynlegur til þess að jafna kjötverðið milli þeirra, sem selja kjöt sitt á innlendum markaði, þá er samt ekki hægt að gera kröfu til hans nema að vissu marki. Hlutverk skattsins á að vera það eitt að hindra, að of mikið berist af kjöti í einu á markaðinn í Reykjavík.

Ég vil líka taka það fram, að n. sú, er hafði þetta mál til meðferðar, komst að þeirri niðurstöðu, að hið hæsta, sem mætti fara í þessu efni, væri 8 aurar á kg. Þetta mál var gaumgæfilega rannsakað í n., og þar sem ég býst ekki við, að hv. þdm. hafi á rækilegri athugasemdum að byggja en þessi n., þá vona ég, að þeir taki þetta til greina við atkvgr.

Hvað einstaka kjötframleiðendur snertir verður þetta ljóst af 6. gr. frv., sem gerir ráð fyrir því, hvernig skipta eigi verðjöfnunargjaldinu milli framleiðenda, þar sem svo er ákveðið, að þeir, sem njóti gjaldsins, megi aldrei fá eins hátt verð fyrir sína vöru og hinir, sem selja á innlendum markaði. Mér finnst þetta benda skýrt til þess, að réttur þeirra, sem bezta aðstöðu hafa til þess að nota innlendan markað, sé settur nokkru hærra en réttur annara. Enda er þetta í sjálfu sér eðlilegt. Það er vitað um þá menn, sem fyrst og fremst njóta verðjöfnunarskattsins, að það eru ekki aðrir en þeir, sem ekki hafa aðstöðu til að njóta Reykjavíkurmarkaðsins, þeir, sem búa víðsvegar úti um landið, við þau skilyrði, að þeir verða að salta sitt kjöt og geta hvorki flutt það nýtt eða fryst til Rvíkur eða til útlanda. Það virðist sem sami skilningur gildi í mjólkursölulögunum, þar sem í 1. gr. er talað um, að nefndinni, sem ákveður verðjöfnunarsvæðin, sé óheimilt að skiptu þeim þannig, að mjólkurframleiðendur séu sviptir markaði í þeim kaupstöðum, þar sem þeir hafa áður selt. Með þessu er viðurkennt, að þeir, sem innlenda markaðsins njóta nú, hafi meiri rétt til hans en aðrir landsmenn, sem ekki hafa haft aðstöðu til að selja sínar afurðir í kaupstöðum og kauptúnum landsins. Ég held þess vegna, að því verði ekki móti mælt, að í l. felist fullkomin viðurkenning fyrir því, að þeir, sem hafa búið að þessum viðskiptum, hafi rétt fram yfir aðra til þess að njóta þeirra áfram, og þær ráðstafanir, sem með l. eru gerðar, eigi að tryggja þennan rétt þessara manna, en ekki skerða, enda er þeim þar í móti ætlað að borga nokkurn verðjöfnunarskatt. Ég vil benda á það, að þessi verðjöfnunarskattur er ekkert smáræði, því að ef hann yrði 10 au. pr. kg., eins og ákveðið er í frv., þá nemur hann um 60000 kr. á þá menn, sem eru í Sláturfélagi Suðurlands, miðað við slátrun á síðasta ári og þá slátrun, sem útlit er fyrir, að verði á þessu ári.

Ég skal ekki fara langt út í það, sem hv. 2. þm. Árn. sagði um till. um að lækka verðjöfnunarskattinn. Hann var að tala um, að ef til vill mætti lesa út úr þeirri till., að þeir sem flytja hana, væru að afla sér með henni kjósendafylgis. Það má segja svo um þessa till. eins og allt annað, sem getur orðið að liði fyrir sérstök kjördæmi, að það séu tilraunir einstakra þm. til að styrkja sína aðstöðu í kjördæmunum, en ég get fullvissað hv. 2. þm. Árn. um það, að að því leyti, sem ég á þátt í flutningi þessarar till., þá er hún ekki byggð á slíkum ástæðum, heldur styð ég till. af því, að mér finnst athugavert að leysa þetta mál á annan hátt en eftir rannsókn þeirrar n., sem um málið hefir fjallað, og líka með tilliti til þess, hver skilyrði eru fyrir sauðfjárrækt hér í nágrenni Rvíkur.

Ég hefi svo ekki ástæðu til að segja meira um þessa till. Það fer sem verða vill um afdrif hennar, og er ekki um annað að gera en taka þeim, hver sem þau verða.

Ég skal þá víkja nokkrum orðum að till. hv. 9. landsk. um aðstöðu neytendafélaga. Tel ég rétt, að þau hefðu fengið rétt til þess að gerast aðilar í málinu. Þessi till. er gerbreytt frá því, sem hún var í upphafi, því nú er ekki gert ráð fyrir, að hún komi annarsstaðar til greina en í þeim stöðum, þar sem enginn hefir leyfi til að verzla með sláturfjárafurðir. Mér virðist helzt, að þessarar till., svo breytt sem hún er, sé helzt ekki þörf. Ég býst við, að þessi vandi sé leystur með þeirri breytingu, sem hv. Ed. gerði á 3. gr., þar sem heimilað er að veita einstaklingum slátrunarleyfi, sem eiga svo örðugt með að ná til sláturhúsa, að illfært sé að dómi kjötverðlagsnefndar. Mér finnst, að þetta geti rúmað heimild þá, sem á að veita með till. hv. 9. landsk. um að seljendur og neytendur megi verzla án milliliða á slíkum stöðum. Till. hv. 9. landsk. er því óþörf að mínu áliti eins og hún er nú orðin. Hinu skal ég ekki mótmæla, sem hæstv. forsrh. hélt fram, að eins og till. var upphaflega stefndi hún að því að kippa fótum undan fyrirkomulagi kjötsölunnar, en nú er till. ekki lengur til tjóns.