26.10.1934
Efri deild: 22. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

16. mál, eldspýtur og vindlingapappír

Magnús Guðmundsson:

Ég ætla einungis að spyrja hæstv. stj. að því, hvað hún búist við að fá miklar tekjur af þeirri einkasölu, sem hér er um að ræða. Að því er snertir eldspýturnar ætti að vera hægt að reikna það nokkuð nákvæmlega út. Af vindlingapappírnum geri ég ekki ráð fyrir neinum tekjum, og held ég, að það hefði verið betra fyrir hæstv. stj. að taka einkasölu á einhverjum öðrum pappír, sem meira er notaður.

Það er mjög undarlegt, þegar svona frv. eru lögð fyrir þingið, að ekki skuli vera gerð nein grein fyrir, hvað mikilla tekna megi vænta af þeim, og er illt fyrir fjhn. að fá ekki upplýsingar um slíkt. Vona ég, að hæstv. stj. geti gefið einhverjar upplýsingar.