19.11.1934
Efri deild: 42. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (950)

17. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Það eru aðeins örfá orð, sem ég þarf að segja. Ég get ekki tekið undir þau orð hv. 1. þm. Reykv., að bíóskemmtanir séu eins nauðsynlegar fyrir allan almenning eins og kaffi og sykur, og skal ég þó játa með honum, að almenningur gæti sér að skaðlausu sparað kaffi og sykur meira en nú er gert. Það var helzt á hv. 1. þm. Reykv. að skilja, að þessi ódýra skemmtun, sem almenningur hefir, bíóin, og hv. þm. N.-Ísf. tók í sama streng, að þau væru ákaflega mikil menningartæki fyrir fólkið. Það er hægt að játa það, að það eru til bíómyndir, sem eru fróðlegar og gagnlegar fyrir fólkið að horfa á, en oftar eru myndirnar þó lítilfjörlegar, og jafnvel skaðlegar, og það hafa komið fram kvartanir, sem sjálfsagt eru á rökum byggðar, um að bíóin hefðu ekki sem bezt áhrif á æskulýðinn, og jafnvel er talið, að óknyttir, sem stöðugt fara í vöxt hjá börnum og unglingum, eigi stundum rót sína að rekja til bíómynda.

Að það sé einkum fátækara fólkið, sem sækir bíóin, eins og hv. þm. N.-Ísf. hélt fram, efast ég um. Ég held miklu frekar, að það sé fólk, sem hefir betri efnalega afkomu, sem sækir bíómyndir.

Þó að ég játi það með hv. 1. þm. Reykv., að kaffi- og sykurtollurinn sé sæmilegur gjaldstofu, og ekki ósanngjarnt að leggja töluverðan toll á þær vörur, eins og reyndar er gert, þrátt fyrir það, þó að þetta frv., sem var verið að samþ., verði að lögum, þá verð ég að segja það, að mér finnst, að bíómyndir séu alveg eins skatthæfar og engu síður.

Allt öðru máli gegnir um það, sem hv. þm. N.-Ísf. minntist á, til hvers ætti að verja skemmtanaskattinum. Það getur vitaskuld mikið verið til í því, að það hafi ekki verið allskostar sanngjarnt að svipta bæjarfélögin þeim tekjum, sem þau gátu af þessu haft, en þetta er nú einu sinni búið að gera, og eins og nú horfir með fjárhagsafkomu ríkissjóðs, þá er óhugsandi, úr því að búið er að ákveða þennan skatt til ríkissjóðs, að hann færi nú eins og ástatt er að fleygja frá sér þessum tekjum. (MJ: Hvað gerði hann ekki við gengisviðaukann?). Ég greiddi ekki atkv. á móti till. hv. þm.

Ég get tekið undir þau orð hv. þm. N.-Ísf., að ég harma það ekki í sjálfu sér, þótt ekki sé komið lengra með þjóðleikhúsið heldur en er. Ég held, að það hefði verið heppilegra að skattleggja bíóin annaðhvort til þarfa bæjar- og sveitarfélaga eða til ríkissjóðs, heldur en að byggja þjóðleikhús fyrir þær tekjur. En menn líta nú misjöfnum augum á það.

Að öðru leyti þarf ég engu að svara, enda komu lítil andmæli til mín fram hjá þessum hv. þm., sem töluðu hér á undan.