19.03.1935
Efri deild: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (1105)

35. mál, fasteignaveðslán landbúnaðarins

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Um þessar brtt., sem hér liggja fyrir, vil ég aðeins segja það um brtt. á þskj. 154 frá hv. 2. þm. Rang., að þetta mál, sem brtt. fjallar um, er samningsatriði, sem sennilega verður ekki afgert á þessu þingi. Hér liggur fyrir frv. um erfðafestu og um óðalsrétt, og geri ég ráð fyrir, að málum þessum verði vísað til Bf.Ísl. til að fá þau samræmd og að fá betra fyrirkomulag á en er í þessum frv.

Í raun og veru eru í frv. því, sem liggur fyrir þinginu um óðalsrétt og flutt er af einum hv. þm. í Nd., viðurkennt, að eignarrétturinn sé ekki að öllu leyti heppilegur eins og hann nú er, eins og reynslan hefir líka sýnt. Er í frv. um óðalsrétt því horfið frá eignarrétti á jörðunum. Ég held því, að það sé að öllu leyti rangt að samþ. þessa brtt., sem hér liggur fyrir.

Viðvíkjandi brtt. hv. 10. landsk. skal ég aðeins segja það, að vitanlega væri æskilegt að geta fært vextina niður í það, sem þar er farið fram á. Hann minntist á það í ræðu sinni, að einn sinni hefðu vextirnir farið niður í 41/2%. Það er alveg rétt, að þá var greitt það mikið vaxtatillag úr ríkissjóði, að lántakendur greiddu ekki hærri vexti, en þá stóð þannig á, þegar svo hátt vaxtatillag var greitt, að annar aðalatvinnuvegur þjóðarinnar stóð sig vel, og ekki var farið fram á vaxtalækkun frá öðrum atvinnuvegum. Nú er ómögulegt að lækka svo vexti hjá einum atvinnuvegi, að ekki komi krafa um samsvarandi lækkun frá öðrum, og verður því eftir atvikum að telja það sæmilegt — þó að það sé ekki nægilegt — að færa vextina niður í 5%.

Það hefir verið rætt í Danmörku nú í 2 ár að lækka vextina, en það hefir strandað á bönkum og sparisjóðum, síðast nú fyrir 2 mán. Þær stofnanir töldu sér ekki fært að standast þann fjárhagslega hnekki, sem af því myndi leiða. Annars er sannleikurinn sá, að ekki er þörf á að svara skrumauglýsingum hv. 10. landsk. Ég segi skrumauglýsingum, vegna þess að hann og hans flokksmenn eru stöðugt að tönnlast á, að ekki megi auka útgjöld ríkissjóðs, heldur verði að gæta hófs og útgjöld og tekjur verði að standast á, en koma svo með brtt. og aftur brtt., sem skapa mundu ríkissjóði aukin útgjöld, án þess að benda á nokkrar tekjur í staðinn.

Þar, sem spilling þingræðisins er orðin mest, hefir komið til orða að banna mönnum að bera fram brtt., er hækka útgjöld ríkissjóðs, nema þeir um leið komi með tekjuöflunartillögur. Þetta væri að vísu æskilegt, en það er bara ekki hægt, nema hv. þm. vilji sjá fyrir því, að ríkissjóður fái auknar tekjur sem þessu nemur. Meðan það er ekki gert, legg ég hiklaust til, að þessar brtt. verði felldar.