19.03.1935
Efri deild: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (1108)

35. mál, fasteignaveðslán landbúnaðarins

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Það er aðeins örstutt aths. út af ummælum, er féllu í ræðu hv. 2. þm. Rang. Það er vitanlega alger misskilningur hjá honum — þó orð mín gæfu ekkert tilefni til að rökræða það —, að frv. það um óðalsrétt, sem fram er komið í hv. Nd., sé sama og styrkur við eignarréttinn. Óðalsrétturinn er alls ekki sama og eignarréttur. heldur aðeins umráðaréttur, eins og sýnir sig fyrst og fremst í því, að óðalseigandi getur ekki samkv. frv. veðsett jörð sína nema upp að vissu marki. Og það á sér hvergi stað um eignarrétt, að eigandi megi hvorki veðsetja né selja eign sína frjálst og óhindrað. Sannleikurinn er sá, að frv. um óðalsrétt er h. u. b. alveg hliðstæða við frv. um erfðafestu, ef þetta mál er skoðað niður í kjölinn, — eða hver er munurinn? Hann er ekki annar en sá, að bóndi, sem hefir óðalsrétt, má veðsetja jörð sína allt upp að 50% af matsverði, en hann má ekki ráðstafa henni að öðru leyti, en búa þar til dauðadags, og síðan gengur hún í erfðir eftir föstum reglum. Þetta er nákvæmlega sama og leyft er með erfðafestunni hér í Rvík t. d. Sá, sem fær land á erfðafestu hjá Rvíkurbæ, kaupir rétt til að nytja landið til dauðadags, en síðan taka erfingjar við eftir föstum reglum. Munurinn er ekki mikill; hann er sá, að annar borgar leigu til ríkisins, en hinn vexti af láni. Ég er í engum vafa um, að ef hv. 2. þm. Rang. sem er lögfræðingur, fer að rannsaka þetta mál, þá viðurkennir hann, að það er ekki fullkominn eignarréttur, ef maðurinn má hvorki veðsetja eign sína né selja. Það er a. m. k. einkennileg „definition“ á eignarréttinum, ef maðurinn má ekki selja né veðsetja eign sína, en það hafa verið hlunnindi fullrar eignar að mega frjálst og óhindrað fara með sitt fé. Það er því óhætt að segja, að með frv. um óðalsrétt er „princip“ eignarréttarins gersamlega gefið upp.