30.03.1935
Neðri deild: 41. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (1129)

35. mál, fasteignaveðslán landbúnaðarins

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Það er alveg rétt hjá hv. þm. N.-Þ. að að vísu er það hámark lánstíma, sem til er tekið í lögunum. En það verður svo í reyndinni, að miðað er við þetta hámark í framkvæmdinni. Það er sótt fast á af lánbeiðendum að fá lánin til langs tíma, og það er erfitt að standa fast á móti því, þegar heimildin er til.

Viðvíkjandi því, að lán, sem veitt eru til ýmsra framkvæmda samkv. lögum þessum, séu ekki undir öllum kringumstæðum greidd upp, þegar verðmætin eru gengin úr sér, þá held eg, að þetta sé ekki rétt. Lengstur lánstími er 35 ár, á lánum til jarðabóta eða sléttunar. Vitanlega geta þessar framkvæmdir enzt miklu lengur, ef vel er frá þeim gengið. Sama má segja um húsabyggingar. Sá maður, sem ég vitnaði í að hafa fengið upplýsingar hjá um endingu rafstöðva, er sérfræðingur ríkisstj. í þessum efnum, hr. Jakob Gíslason. Hann sagði mér, að réttast væri að reikna með, að rafveiturnar yrðu að borga sig niður á 15 árum; það væri meðaltal af endingartíma þeirra. Hitt er annað mál, að mikið er komið undir gerð og frágangi um endingu þeirra. En ég geri ekki ráð fyrir, að lánsstofnanirnar geti í hvert skipti dæmt um endingu þeirra.

Viðvíkjandi því, sem ég sagði, að af jarðabótum, sem bændur leggja í, séu rafveitur óarðbærastar, þá fullyrði ég það af þeirri reynslu, sem ég hefi af fjölda rafstöðva, er reistar hafa verið víðsvegar, að þær hafa orðið svo dýrar, að óvíst er, að þær borgi sig. Vitanlega eru að þeim mikil þægindi, en þær hafa orðið mjög dýrar borið saman við hvað þær auka fjárhagslega afkomu. Það má deila um, hvort íbúðarhús séu arðbær eða ekki. En það verður ekki hjá því komizt að hafa hús á jörðunum, og ef húsnæðisleysið orsakaði, að bændurnir yrðu að flytja burt af jörðunum, þá má reikna húsin arðgæf að einhverju leyti.