18.03.1935
Neðri deild: 31. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í B-deild Alþingistíðinda. (1157)

76. mál, flutningur á kartöflum

Pétur Ottesen:

Það er fyrir mér eins og hv. þm. Vestm., sem síðast talaði, að ég þarf ekki að fara mörgum orðum um brtt. mínar á þskj. 151. því að þær eru fram komnar í framhaldi af því, sem ég sagði hér við 2. umr. um málið, og þá sérstaklega um 1. gr. frv. Mér þykir allt of vægt til orða tekið í 1. gr. eins og hún er nú, þar sem ekki er kveðið nægilega fast að orði um, að ekki skuli leyfður innflutningur á kartöflum á þeim tíma árs, sem nægilegar birgðir eru fyrir í landinu sjálfu. Með þessu, að nægilegar birgðir séu til í landinu sjálfu, ætlast ég til, að enginn þurfi að fara varhluta af því að ná í þessa vöru, sem hennar vill á annað borð neyta, þótt takmarkanir séu á innflutningnum frá útlöndum, og það miklar. Þennan skilning á að leggja í brtt. mínar, að alls ekki skuli leyfður innflutningur á þeim tíma árs, sem nægar birgðir eru í landinu sjálfu.

Um 2. lið 1. gr., sem ég legg til, að alveg verði felldur niður, er það að segja, að ég færði rök fyrir því, að hann mætti mjög auðveldlega skilja þannig, að þegar verð er ákveðið t. d. að hausti til, skyldi taka tillit til markaðsverðs erlendis, en eins og kunnugt er, þá er markaðsverð á þeim tíma svo lágt erlendis, að með öllu væri ómögulegt að framleiða kartöflur hér á landi með því verði. Þetta gæti því orðið til þess, að svo lágt verð yrði sett á kartöfluframleiðslu landsmanna, að hún fengi með engu móti staðizt, í stað þess, að þessar ráðstafanir eiga að verða til þess að ýta undir hana. (BÁ: Ég sé ekki, að hv. þm. leggi til, að þetta verði fellt niður). Jú, það stendur í brtt., að liðurinn skuli orðast um, og ég veit, að hv. þm. Mýr. áttar sig strax á þessu, þegar hann athugar frv. Þrátt fyrir það, að ég felli þarna niður þessa ákvörðun verðsins, sem gert er ráð fyrir að fari fram á svo óheppilegan hátt, þá vil ég alls ekki ganga framhjá því, að hafa heimild til þess að ákveðið sé hámarksverð á kartöflum, ef það kemur í ljós, að innlendir framleiðendur ætla að fara að misnota þá aðstöðu, sem þeir hafa þegar þeir sitja einir að markaðinum.

Það hefir nokkuð verið rætt um innflutningsbannið á niðursoðinni mjólk í þessu sambandi, og út af því, sem hv. þm. Vestm. sagði hér við 2. umr. málsins, að ráðh. hefði ekki notað það vald, sem hann hefði til þess að hlutast til um verðið á mjólkinni, þá er það síður en svo, að það sé rétt hjá hv. þm. Verðið var ákveðið í samráði við innflutnings- og gjaldeyrisnefnd, sem ráðh. fól fyrir sína hönd að hafa eftirlit með því, að hámarksverð væri ákveðið. Enda ætla ég, að hv. þm. Mýr. hafi upplýst það hér við 2. umr., að það er síður en svo, að þeir, sem láta mjólkina í niðursuðu, beri meira úr býtum en aðrir, sem leggja mjólk inn í mjólkurbúin og selja svo mjólkina beint til neytenda eða vinna úr henni.

Það er svo ekki fleira, sem ég þarf að segja um þessar brtt. mínar, en út af hámarksverðstill. hv. þm. Vestm., þar sem hann fer inn á þetta sama efni og eg, að heimila ráðh. að setja hámarksverð á kartöflurnar, þá ætlast hann til, að ráðh. grípi því aðeins til heimildarinnar, að fram komi óskir um það frá félagi matvörukaupmanna í Rvík. Mér virðist þetta vera næsta veik vörn fyrir neytendur gegn háu verði á kartöflum, og veikari en ég geri ráð fyrir, því að ég get með engu móti skilið, að hægt sé að líta á matvörukaupmenn í Rvík sem sérstaklega vel fallna til þess að gæta hagsmuna kartöfluneytenda í þessu efni, ég tel því réttara að láta ráðh. hafa þetta með höndum og bera á því fulla ábyrgð, því að með þessu móti getur hann skellt allri skuldinni á matvörukaupmennina. Ef þeir láta ekkert frá sér heyra, þá þarf ráðh. heldur ekkert að gera. Nei, það er betra að láta ráðh. vera þarna ábyrgun gagnvart neytendum og gæta þess, að ekki sé sett of hátt verð á vöruna, og einnig á hann auðvitað að sjá um, að ekki sé farið óhæfilega langt í því að skera niður verðið fyrir framleiðendum. Ég held því, að hv. þm. Vestm. ætti að geta fallizt á till. mína í þessu efni við 3. gr., hvort sem hann svo getur fellt sig við brtt. mínar að öðru leyti. Ég hygg, að það, sem við viljum báðir, sé eins vel tryggt með minni brtt. og hans.

Ég hefði viljað fara nokkrum orðum um brtt. 2 þskj. 114, frá hv. þm. V.-Húnv., en þar sem hann hefir ekki enn talað fyrir þeim, þá ætla ég að sleppa því þangað til síðar.