18.03.1935
Neðri deild: 31. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (1166)

76. mál, flutningur á kartöflum

Gísli Sveinsson [óyfirl.]:

Ég hefði óskað, að málið yrði tekið af dagskrá nú, svo kostur gæfist á að athuga framkomnar till., samræma þær frv., ef hægt er, en fella ella. Ég skal aðeins geta þess út af brtt. um styrk samkv. gr. og brtt. á þskj. 146, sem hv. þm. Árn., hv. 1. þm. Rang. og ég höfum borið fram og blandað hefir verið inn í umr., að sumir hv. þm., sérstaklega þm. Mýr., hafa ekki farið allskostar rétt með þann samanburð. Till. á þskj. 146 gerir ráð fyrir flutningsstyrk allt að 3 kr. á tunnu. Það er hámark. En till.-menn gerðu ráð fyrir, að hann yrði hlutfallslega minni eftir því sem leiðir væru styttri, allt niður í nokkra aura. Þegar tillit er svo tekið til þess, að þeir einir geta notið styrks, sem búa í 45 km. fjarlægð frá sölustað, eru þeir útilokaðir, sem styttra þurfa að flytja. Till. er því fram komin til samræmis við 4. gr., þar sem þeim, sem flytja á sjó, er ákveðin föst ívilnun, með því að skylda skip ríkissjóðs til þess að flytja vöruna fyrir hálft gjald, fyrir alla þá, sem þess geta notið. Og till. fer fram á styrk til þeirra, sem tilneyddir eru að flytja landleiðina, svo að það vegi nokkuð salt á móti. Þó er hér ennfremur að athuga, að farmgjöld á sjó eru til muna lægri enn flutningsgjöld á landi, og þeir standa því alltaf verr að vígi um að framleiða kartöflur, sem búa langt frá sjó og þurfa að byrja á dýrum landflutningum. Það ætti því fyrst og fremst að taka þá til greina, en ef til vill sleppa öðru.

Hv. frsm. landbn. hefir skýrt frá því, að flutningsgjald með skipunum væri nú 3 kr. pr. tunnu, sem eigi að færa niður í kr. 1.50 fyrir alla jafnt, Þegar nú er tekið tillit til þess, að menn austan, vestan eða norðan af landi geta komið tunnunni hingað til Rvíkur fyrir 3 kr., er það ekki mikið borið saman við það, sem landflutningarnir kosta. Ef menn vildu kynna sér það, mundu þeir sannfærast um, að það er nálega 3-falt dýrara að flytja landleiðina austan frá Vík, eða um 8 kr. á tunnu. Hvaða flutninga er svo meiri ástæða til þess að styrkja? Það er alkunnugt, að í V.-Skaftafellssýslu má framleiða næstum ótakmarkað af kartöflum, og í Mýrdalnum, einkum í Vík, eru beztu kartöflur, sem við fáum, ef útsæði er gott, — hvorki Akranes eða Eyrarbakki þola þar samanburð. Mun þetta liggja mikið í því, að jörð er þar sendin og sáðlandið liggur þar sólarmegin undir hömrunum. En þaðan er nú flutningskostnaður 8 kr. á tunnu. Ég tel ekki vafa á, að V.-Skaftfellingar mundu framleiða kartöflur í stórum stíl, ef ekki væri ókleift að flytja þær vegna kostnaðar, að ég ekki tali um, ef jafnt væri og á sjónum. Þessum héruðum eru því alveg bjargir bannaðar um að framleiða kartöflur, nema styrkur verði veittur til flutninganna.

Taxtinn mun nú vera: frá Ölfusá 2 kr. pr. tunnu, frá Rangárvöllum 3 kr. pr. tunnu, frá Eyjafjöllum 5 kr. pr. tunnu og frá Vík 8 kr. pr. tunnu.

Þegar talað hefir verið um, að allir ættu að fá flutningsstyrk 3 kr. pr. tunnu, er það misskilningur; hann á að vera í hlutföllum við vegalengd, mestur 3 kr. frá Vík og niður í 50—73 aura frá Ölfusá.

Ef þeir, sem búa á Eyrarbakka og geta flutt á sjó, fá helmings afslátt af farmgjaldi, hví skyldu þeir, sem búa í Ölfusinu, ekki einnig fá styrk, þó þeir flytji landleiðina? Það nær ekki neinni átt að binda það við sjóinn einan.

Það hefir réttilega verið á það bent, að aðaltilgangur þessa frv. eigi að vera sá, að styðja aukningu framleiðslunnar á þessu sviði, enda þarf hún að vera svo rífleg og góð, að hún fullnægi landsmönnum.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um málið nú, en óska eftir, að því verði frestað.