27.03.1935
Efri deild: 36. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

76. mál, flutningur á kartöflum

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Það ber að viðurkenna, að góður tilgangur er bak við þetta frv., en hann er sá, að greiða fyrir kartöflusölu innanlands og styðja þar með að aukinni framleiðslu. Ég verð nú að segja, að samt sem áður þykir mér frv. fremur innmatarlítið, sérstaklega eftir að felld hefir verið niður 4. gr., sem upphaflega var í frv., en hún var um það, að skipaútgerð ríkisins væri skylt að flytja innlendar kartöflur milli hafna fyrir hálft farmgjald. Ég hefði talið það allmikla hvatningu til þess að menn legðu stund á kartöfluræktina úti um land, ef þetta ákvæði hefði fengið að halda sér.

Ég skal að vísu játa, að í 1. gr. frv. er ákvæði, sem er í áttina til þess að styðja að aukinni innlendri framleiðslu á þessari vöru, en nú hafa heyrzt raddir um að fella þá grein niður eða breyta henni allmjög, og þá teldi ég allmikið vera farið að sneyðast um innviðina í frv.

2. gr. frv. felur ekki í sér nein ný nauðsynjaákvæði, nema ef vera skyldi í 2. málsgr., þar sem kveðið er svo á, að þeim mönnum, sem Búnaðarfél. Ísl. leitar til í þessum efnum, sé skylt að gefa umbeðnar skýrslur. En mér er kunnugt um, að landbúnaðarráðh. hefir leitað til Búnaðarfél. án lagaheimildar og beðið það um að afla upplýsinga fyrir gengisnefnd, og finnst mér, að ekki þurfi nein l. til þess.

En það, sem kom mér sérstaklega til þess að standa upp, eru ákvæði 3. gr., sem ég tel, að ekki séu nógu nákvæm. Þar er að vísu sagt, að landbúnaðarráðh. sé heimilt að ákveða með reglugerð, hvaða skilyrðum innlendar kartöflur skuli fullnægja til þess að geta talizt markaðshaefar. Ég geri ráð fyrir, að bak við ákvæðið felist það, að farið er fram á mat á íslenzkum kartöflum, en hinsvegar vantar ákvæði, sem ég hefði talið nauðsynlegt að setja í l., en það er, að kveðið sé á um, hvað megi setja í reglugerðina, því það er venja, þegar gert er ráð fyrir mati, að þá séu ákvæðin nokkru fyllri en hér er.

Mér er nú ekki kunnugt um, hvernig þetta verður framkvæmt, en það getur verið, að það megi setja ákvæði um þetta með reglugerð, en það eru þó ýms atriði í sambandi við þetta, sem ég hefði talið nauðsynlegt að hafa ákvæði um í l., eins og það, hvor eigi að bera kostnaðinn, og eins er hitt, að ef mat á að vera, þá get ég ímyndað mér, að það verði örðugleikum bundið að ákveða, hver eigi að útvega hús, þar sem matið eigi að fara fram. (JBald: Þjóðleikhússkjallarinn). Hann gæti verið góður í Rvík, en það vantar ákvæði um, að matið eigi að fara fram í Rvík. En ég hygg, að það sé svo með þjóðleikhúsið, að það sé allt undir stjórn n., sem hefir verið falið víðtækt vald yfir húsinu. Ég veit ekki, hvort kjallarinn liggur svo laus fyrir til afnota, og a. m. k. geta ekki allir notað hann.

Ég hefði talið nauðsynlegt, að í sambandi við ákvæði 3. gr. væri sett ákvæði um það, að bæjar- eða sveitarstjórnum væri skylt að útvega hús til þessara hluta, og að bæjar- og sveitarfélög annaðhvort bæru kostnaðinn af því sjálf eða tækju hann af framleiðslunni, eftir vissri reglu, sem ég hygg, að nauðsynlegt sé að hafa ákvæði um í l. sjálfum frekar en í reglugerð.

Það hefir nú verið talað margt á við og dreif um þetta frv., og sumir gera alllítið úr því. En ég skal segja það sem mína meiningu, að ef ákvæðum 1. gr. verður ekki mikið brjálað, þá hygg ég, að frv. megi koma að nokkrum notum, og þá er vissulega mikið unnið. Því að æskilegt væri það, að hægt væri að komast hjá því sem mest að kaupa þessa vöru frá útlöndum, og er sú nauðsyn ekki sízt aðkallandi nú, þegar þjóðin á við svo mikla gjaldeyrisörðugleika að stríða. Auk þess hagar víða svo til, að kartöflurækt getur orðið verulegur atvinnuauki fyrir menn. Á ég þar ekki við þá eina, sem búa í sveit, heldur, og ekki síður, þá stétt manna, sem lifa annars af daglaunavinnu í kaupstöðum. Sumstaðar hafa einmitt kauptúnshreppar gert nokkuð til þess að styðja að því, að verkamenn gætu aflað sér nokkurrar atvinnu með þessari ræktun, á þann veg að sjá þeim fyrir nokkru landi til þessarar ræktunar. Þetta er mjög lofsamlegt, eins og öll viðleitni, sem lýtur að því að hjálpa mönnum til þess að hjálpa sér sjálfir. Og ef þetta frv. gæti eitthvað stutt að því að bæta aðstöðu slíkra manna, þá teldi ég töluvert unnið.

Í sambandi við þetta frv. hafa sumir hv. þdm. minnzt á, að nauðsynlegt væri að setja inn í það ákvæði um geymslu fyrir kartöflur, sérstaklega hér í Rvík. Það mál hefir áður komið inn á þing og fengið nokkra afgreiðslu af þingsins hálfu, þannig að stj. hefir verið veitt heimild til þess að gera ráðstafanir í þá átt. En ég hygg nú, að ekki sé svo mjög mikil eftirspurn eftir því að fá geymslu fyrir kartöflur hér í Rvík, af þeirri ástæðu, að mér skilst, að menn eru dálítið hræddir við að hrúga saman miklu af þessari vöru, því að mikið er í húfi, ef eitthvað lítið kvantum reynist vera skemmt, því að þá breiðist skemmdin eða getur breiðzt mikið út, ef um stóra geymslu er að ræða. Þess vegna treysti ég því fullkomlega, að ef kartöflurækt eykst í landinu, þá sjái menn ráð til þess að koma sér upp kartöflugeymslum sjálfir, því að það er mjög ódýrt tiltölulega, og þá er jarðgeymsla kartaflna miklu tryggari. En jafnvel þó að geymsla sé góð, verður að vera nokkuð stöðugt og nákvæmt eftirlit með þeim í geymslunni.

Þess hefir verið getið í sambandi við þetta frv., að í 3. gr. þess fælust m. a. ákvæði, sem ættu að fyrirbyggja það, að svonefnd kartöflusýki eða aðrir kartöflusjúkdómar breiddust út, því að þegar mat væri komið á kartöflur, þá verðust menn sýkinni betur. Þetta má vera. En ég hygg þó, að mesta og bezta vörnin væri að auka fræðslu um það efni. Því að það er nokkurn veginn auðvelt að haga útsæðisvali þannig, að ekki sé nein hætta af þeim sjúkdómi. Og þar sem einn hv. þm. minntist á það í umr., að hann vissi t. d. um ákveðin kauptún hér í námunda, þar sem kartöfluuppskeran hefði eyðilagzt vegna kartöflusýki, þá hygg ég, að á þeim stað hafi þegar verið unninn sigur á þeim sjúkdómi, aðeins með útsæðisvali.

Ég er sem sagt ekki svo mjög hræddur um þetta, því að ef menn hagnýta sér þá fræðslu, sem Búnfél. Ísl. hefir látið í té í þessum efnum, þá má ætla, að menn komist fljótt upp á að verjast þeim hættulegustu sjúkdómum, sem þessi jurt er aðallega í hættu fyrir.

Ef nú þetta frv. nær fram að ganga án þess að því verði breytt til hins lakara hér í hv. d., og ekki sízt ef á því yrðu gerðar nokkrar breyt. til bóta, þá tel ég athugunarmál og gildi skjóta því til hv. n., hvort henni þætti ekki ástæða til þess að breyta frv. á þá leið, að þessari heimild, sem í frv. er gert ráð fyrir, að veitt verði, verði breytt á þá leið, að hún sé ekki eingöngu bundin við kartöflur, eins og hér er gert, heldur gildi hún líka um aðra garðávexti. Ráðuneytið getur svo ákveðið um það á sínum tíma, hvort ætti að nota þá heimild út í yztu æsar. Vera má, að ráðuneytinu þætti ekki ástæða til að nota heimildina nema um kartöflur fyrst í stað. En hér á landi má rækta marga fleiri garðávexti heldur en kartöflur, sem mjög nauðsynlegt er, að ræktun aukist á innanlands, ekki sízt þar sem þar er um að ræða hollar og fjörefnaríkar fæðutegundir, t. d. ýmsar káltegundir og gulrætur og aðra slíka garðávexti, sem standa mjög framarlega meðal fæðutegunda að því er hollustu og fjörefnamagn snertir.

Út af þeim orðum, sem fallið hafa um það, að fella jafnvel 1. gr. frv. niður, vil ég segja það, að ég tel hana svo mikils virði, að ef svo yrði gert, þá teldi ég ekki mikið unnið með slíkri lagasetningu sem þessu frv. eins og það þá yrði.