02.03.1935
Efri deild: 15. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í B-deild Alþingistíðinda. (1198)

31. mál, sparisjóðir

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég geri að sjálfsögðu ráð fyrir, að mál þetta gangi til n. Ég vil því leyfa mér, áður en það fer þangað, að minna á nokkur atriði í frv., sem ég tel varhugaverð og að mínum dómi mættu betur fara á annan veg. mér þykir rétt að láta aths. mínar koma fram nú þegar, áður en n. fer að fjalla um málið, því að þá má vera, að hún sjái sér fært að taka þær að einhverju eða öllu leyti til greina.

Í 1. gr. frv. er svo kveðið á, að hafi sparisjóður innstæðufé, sem nemi 200 þús. króna, þá skuli stjórn hans skipuð 5 mönnum. Það hefir nú tíðkazt hingað til, að stjórnir sparisjóða hafa almennt ekki verið skipaðar nema 3 mönnum, og hefir gefizt sæmilega eftir því sem ég bezt veit. Hitt er annað mál, hvort ekki geti verið rétt að fjölga í stjórn sjóðanna þegar þeir eru orðnir mjög stórir, og reka margþætta starfsemi, en að binda það við 200 þús. kr. innstæðufé sjóðanna tel ég of lágt. Mér þætti sýnu nær að binda það t. d. við 400 þús. kr. Í þessu sambandi ber og að athuga það, að eftir því, sem stjórnendum sjóðanna er fjölgað, eftir því verður stjórnarkostnaðurinn meiri, og þá um, leið verða útlánsvextir sjóðanna sennilega hærri. Hinn aukni kostnaður kemur því niður á þeim, sem lánin taka, sem venjulega er hinn fátækari hluti borgaranna.

Þá er ákvæði 2. málsgr. 1. gr., sem mér finnst ekki allskostar réttlátt, þar sem svo er ákveðið, að fjmrh. skipi formann í stjórn þeirra sparisjóða, sem ekki eru eign sýslu- eða bæjarfélaga, hreppsfélaga eða félaga einstakra manna. Með þessu verða héruð þau, sem að sjóðunum standa, svipt þeim rétti, sem þau hafa haft, en hann færður í hendur landsstj. Í Dalasýslu er þannig ástatt, að þar er sparisjóður, sem var sýslueign, en telja verður vafasamt að sé það enn, því að sýslunefndin hefir sleppt umráðum yfir honum, en þess í stað eru komnir 30—40 ábyrgðarmenn fyrir sjóðinn, sem haldið hafa aðalfund árlega, kosið þá í stjórn og samþ. ársreikninga sjóðsíns. Við Dalamenn höfum litið svo á, að héraðsbúar ættu að hafa full umráð yfir þessum sjóði, a. m. k. á meðan allt færi sæmilega fram, og fyrir því teljum við, að ekki geti komið til mála, að ríkisstj. fari að taka í sínar hendur að skipa formann sjóðsins. Það myndi því óneltanlega verða kurr mikill þar vestra, ef nú ætti að fara að færa stjórn sjóðsins í hendur annara, þó ekki væri nema að einhverju leyti, a. m. k. á meðan ekkert það hefir komið fram í rekstri sjóðsins, sem gefur ástæðu til slíks, og hætt er við, að slík afskipti landsstj. gætu leitt til þess, að sjóðirnir fengju frekar pólitískan lit, og með þessu er verið að seilast eftir yfirráðum í heruðum af hæstv. landsstj. Ég vænti því, að hv. flm. frv. þessa falli frá þessu ákvæði, eða telji ekki ástæðu til þess, að því sé framfylgt á meðan allt fer vel úr hendi um stjórn sjóðanna.

Mér skildist helzt á hv. flm., að hann teldi sjóði, sem svo er ástatt um sem sparisjóð Dalasýslu, vera almennings eign, sem hið opinbera ætti að hafa yfirumsjón með, en ég tel það ekki geta komið til mála.

Hv. flm. vildi halda því fram, að það væri of litið að hafa 3 menn í stjórn sjóðanna, því oft gæti farið svo, að einhver forfallaðist. Út af þessu vil ég benda honum á, að það eru ávallt kosnir varamenn í stjórn sjóðanna; kemur því maður manns í stað, ef einhver forfallast.

Þá er eitt atriði enn, sem mér finnst athugavert í frv., og það er þar sem gert er ráð fyrir því, að stjórnendur megi ekki starfa við sjóðina, ef sjóðirnir hafa yfir 200 þús. kr. innstæðufé Hér þykir mér ákvæðið sett við of lága upphæð. Mér virðist að vel mætti ákveða, að stjórnendur sjóðanna mættu ekki starfa við þá þegar þeir hefðu yfir hálfa millj. innstæðufé. Þetta vildi ég mega biðja n. þá, sem málið fær til meðferðar, að athuga. Hvort frv. verður frekar vísað til fjhn. eða allshn., læt ég mig engu skipta.