09.03.1935
Neðri deild: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í B-deild Alþingistíðinda. (1317)

74. mál, Skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Það er rangt hjá hv. þm. Snæf., að í því frv., sem sjálfstæðismenn báru fram á síðasta þingi, hafi ekki verið gert ráð fyrir lántöku nema að litlu leyti. Ég man það ekki nákvæmlega, af því að ég hefi ekki frv. hjá mér, en mig minnir, að það hafi verið á 5. millj., sem taka skyldi að láni samkv. frv., en þá upphæð átti síðan að endurgreiða úr ríkissjóði með þeirri upphæð, sem útflutningsgjaldið af sjávarafurðum nemur á hverju ári. Hv. þm. hlýtur að geta skilið, að 150 þús. kr. ná skammt til skuldaskila, en það er sú upphæð, sem gera má ráð fyrir, að útflutningsgjaldið nemi á einu ári. Tilgangurinn með frv. sjálfstæðismanna var sá, að taka 4—5 millj. kr. að láni, og borga vexti og afborganir af því láni með upphæð, sem svaraði útflutningsgjaldi því af sjávarafurðum, sem rennur í ríkissjóð. Það verður ekki séð, hvernig ríkissjóður átti að hafa þetta fé handbært á annan hátt en taka það að láni. Það verður ekki annað séð en að hin raunverulega lausn, sem sjálfstæðismenn tala um — en sú lausn á auðvitað ekki að vera neinn loddaraleikur —, geti orðið á annan hátt en með lántöku. Mér þykir ólíklegt, ef sjálfstæðismenn koma fram með frv., að það geti komizt hjá þessari lausn málsins.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að karpa um þetta mikið lengur.

Ég veit ekki hvort það kemur skýrt fram, að hér er ætlazt til þess, að lánið sé tekið innanlands, og vil ég halda, að ekki séu lokaðir möguleikar fyrir því. Þær skuldir, sem hér er að ræða um greiðslu á, eru við innlenda lánardrottna, og mun ekki vera tilgangur flm. að tekið verði til þess erlent lán, því það verður ekki tekið beinlínis til að auka atvinnu, heldur er hér aðeins um skuldaskil að ræða.

Hv. þm. talaði digurbarkalega um, að þessi 11/2 millj. mundi hrökkva skammt, og skal ég fúslega játa það. En þó að skuldaskilin séu nauðsynleg, verður þó að athuga, að því meira sem lagt er til skuldaskilasjóðs, því minna verður til annara framkvæmda.