23.03.1935
Neðri deild: 36. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í B-deild Alþingistíðinda. (1333)

74. mál, Skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Hv. 5. þm. Reykv. spurði, hvort mér þætti ekki skarð fyrir skildi, ef togarafloti landsmanna yrði seldur til útlanda. Hann veit fyrirfram, hv. þm., hverju ég eða hver sem væri myndi svara. Það væri svo stórt skarð, að ég sé með engu móti, hvernig það yrði fyllt. Um það erum við báðir sammála. En ég vil í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, mega minna á það, sem hv. um. sagði í upphafi sinnar ræðu, að ef hrun er framundan fyrir sjávarútveginum, þá er ómögulegt að leggja fram það mikið fé úr ríkissjóði, að nægi til bjargar. Þetta liggur í augum uppi, því að um leið og sjávarútvegurinn hrynur, þá er þjóðarbúskapurinn allur kominn í kaldakol. Um þetta er enginn ágreiningur. Það er heldur enginn ágreiningur um það, að þótt skuldaskil séu mikils virði fyrir þá, sem eru skuldum vafnir, þá er aðalatriðið, hvernig ræðst fram úr þeim örðugleikum, sem nú eru á sölu sjávarafurðanna erlendis. Ef þeir möguleikar halda áfram að þrengjast, æ og æ lokast fleiri sund, þá er ekki hægt að halda útgerðinni við með framlögum úr ríkissjóði. Um þetta erum við sammála, hv. 5. þm. Reykv. og ég. En ég tel ekki enn svo komið, að ástæða sé til þess eða afsakanlegt að leggja árar í bát og gefast upp. Ég hefi í sambandi við þetta mál reynt bæði nú og í haust að benda rækilega á það, að ég sé ekkert minnsta vit í því að binda stórfé í skuldaskilum, svo að fyrir það sé girt, að hægt sé að leggja eitthvað fram til að bæta sölumöguleikana erlendis, breyta til um verkunaraðferðir, gera framleiðsluna fjölbreyttari og vinna nýja markaði. Það má ekki einasta vinna að þessu jöfnum höndum, heldur verður að leggja meiri áherzlu á hið síðara en skuldaskilin sjálf, svo nauðsynleg sem þau þó eru. (PHalld: Þetta þekkjum við báðir). Já, þetta þekkjum við báðir.

Þá tók hv. þm. til athugunar annað merkilegt atriði í sambandi við þetta mál, sem sé hvaða hluta útgerðarinnar, ef um takmörkun framleiðslunnar væri að ræða, væri heppilegast að styðja frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Ég er honum sammála um það, að það ber að gera sér það ljóst, hverjir eiga að njóta þess takmarkaða stuðnings, sem ríkið getur veitt. Hv. þm. komst að þeirri niðurstöðu, að svo þýðngarmikið sem það væri að hjálpa vélbátaútgerðinni, þá bæri að leggja aðaláherzluna á að styðja togaraútveginn, vegna þess tvenns, að það hefði sýnt sig, að togararnir öfluðu meira miðað við tilkostnað, og að þeir notuðu minna af aðkeyptum vörum til sinnar framleiðslu en vélbátaútvegurinn. Hann játaði hinsvegar, að vélbátaútvegurinn krefði minna fjármagns og veitti fleiri mönnum atvinnu. Þetta drap ég á í minni ræðu, enda verður því ekki í móti mælt. Ég skal víkja að því, sem hv. þm. drap á, að ef um takmarkað fjármagn væri að ræða, bæri að beina því til togaraútgerðarinnar. Ég hygg, að það sé rétt, ef tekið er langt tímabil, að togaraútgerðin hafi skilað mun betra árangri en vélbátaútgerðin. Hinsvegar er mér ekki kunnugt um, að samanburður hafi verið á þessu gerður hin síðustu ár, a. m. k. liggja ekki fyrir hjá mér neinar glöggar skýrslur um það. Hitt hygg ég, að ekki geti verið rétt, þótt ég geti ekki að svo stöddu sýnt fram á það með óyggjandi tölum, að togararnir noti minna af erlendum nauðsynjum en vélbátaútgerðin. Ég skal ekkert um þetta fullyrða, en fljótt á litið er þetta næsta ótrúlegt. Fyrir nokkrum árum tók ég upp þann hluta af afla ýmsra veiðiskipa, sem gekk til launagreiðslu, og ég ætla, að ég muni það rétt, a. m. k. getur þar ekki skakkað miklu, að yfirleitt hafi sá hluti aflaverðs reynzt milli 17—27% af saltfiskverði aflans, sem fór til skipshafnarinnar. Að sjálfsögðu er þetta hlutfallslega minna, þegar verðið er hátt og veiðin mikil, því að það er fast kaup á togurunum, en aftur meira, þegar lítið veiðist og verðið er lágt. Við vélbátaútveginn eru helmingaskipti algengust. Að vísu er þetta nokkuð misjafnt á hinum einstöku stöðum. Sumstaðar er eitthvað tekið af óskiptu áður en hlutaskipti fara fram. En um þelta liggja fyrir nokkrar upplýsingar í skýrslum mþn. í sjávarútvegsmálum, sem ég hefi ekki hér hjá mér, en mér þykir ákaflega vafasamt, að togaraútgerðin noti minna af aðkeyptum vörum en vélbátarnir. (PHalld: Ég skal reyna að lýsa þessu með tölum við næstu umr.). Það er gott. — Þá er hin ástæðan, sú, að botnvörpungarnir hafi gefið betri raun, betri niðurstöðu en vélbátarnir. Ég hygg, að þetta sé rétt. En á þessu er sá stóri galli, að stórútgerðinni er miklu hættara við að stöðvast fljótar, þ. e. a. s. áður en séð er fyrir, hvort almennt hrun er yfirvofandi eða ekki. Og eftir því, sem ég býst við, þá er meiri ástæða til að óttast afleiðingarnar af stöðvun vélbátaflotans, vegna þess að við hann eru bundnar atvinnuvonir miklu fleiri manna en togaranna.

Hv. þm. virðist hafa styggzt af því, er ég sagði, að togaraútgerðin hefði fengið mikið fé sér til styrktar og að henni stæðu yfirleitt efnaðir menn. En það er vitað, að mikið af togurum hér er hlutafélagaeign og að margir þeir menn, sem að þeim standa, eru vel efnaðir, hvernig svo sem efnahagur togarafélaganna sjálfra kann að vera. Og hitt er líka vitað, að mikið af fé útgerðar þessarar hefir verið tekið og lagt í skrautleg stórhýsi hér í bæ, og svo í búskap, eins og t. d. Korpúlfsstaðabúið. Þýðir ekki að berja höfðinu við steininn og bera brigður á þetta. — ég held, að ekki hafi verið fleira í ræðu hv. þm., sem ástæða er til að drepa á.

Þá vil ég vikja nokkrum orðum að þeim atriðum, er máli skipta í ræðu hv. þm. Vestm. Hann sagði, að vissulega væri ástæða til að hjálpa fleirum en þeim, sem frv. okkar gerir ráð fyrir, eins og t. d. togaraútgerðinni. Það er e. t. v. rétt. En á því er þó ekki talin yfirvofandi hætta, að togaraflotinn verði að stöðvast, eins og e. t. v. er ástæða til að óttast um vélbátaútveginn.

Þessi hv. þm. gerir mikið að því að snúa við orðum manna. Hann sagði t. d., að ég hefði talið það óviðeigandi, að ég var spurður þess, hvort loforð væri fengið fyrir láni. Þetta er ekki rétt með farið. Ég taldi sjálfsagt og eðlilegt að spyrja, og ég svaraði þessari spurningu afdráttarlaust báðum þeim hv. þm., er ég talaði við um þetta.

Hvað snertir framlag til kreppulánasjóðs, þá hefir hæstv. fjmrh. minnzt á það, og þarf ég engu við það að bæta. En um það, hvort heppilegt sé að gefa út handhafaskuldabréf, verð ég að segja, að ég tel varhugavert að halda lengi áfram á þeirri braut. Ég hefi gefið kost á því að athuga nánar, hvort rétt væri að gefa sjóðstj. heimild til að gefa út slík bréf með tryggingu ríkissjóðs.

Þá sagði hv. þm., að við í stj.flokkunum hefðum tafið málið á síðasta þingi. Þetta er rangt. Ég kom þá á tvo fundi með sjútvn. til að athuga þetta. Til samkomulags lagði ég þá fram uppástungu, hér um bil shlj. við þetta frv. Skoðun mín hefir ekki breytzt frá því, sem þá var. Ég held, að ekki sé hægt að leggja meira fram en í frv. er gert, en hinsvegar vil ég gera allt, sem í mínu valdi stendur, til þess að samkomulag náist. Ég hefi ekkert á móti því, ef það gæti orðið til þess að stytta umr., að koma á fund hjá sjútvn., til þess að reyna að koma á samkomulagi.