19.03.1935
Neðri deild: 32. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (1395)

75. mál, hæstiréttur

Thor Thors:

Það er ekki nema eðlilegt, að það verði nokkrar umr. um slíkt stórmál sem þetta, og ekki sízt þegar það er athugað, að ennþá hafa verið frekar litlar umr. á þessu þingi. Hér er verið að gera tilraun til að koma á mjög þýðingarmikilli og ef til vill örlagaríkri breyt. á hæstarétti þjóðarinnar. Það eru aðallega þrjú nýmæli, sem hér eru á ferðinni. Um tvö þeirra eru skoðanir manna a. m. k. mjög skiptar. Fyrsta breyt., sem lögfræðinganefndin vill gera, er sú, að koma á opinberri atkvgr. hjá dómendunum. við minni hl. allshn. getum fallizt á slíka opinbera grg. dómendanna, teljum jafnvel, að það geti orðið til þess að rétturinn yrði ekki tortryggður, eins og nú á sér stað, undir því fyrirkomulagi sem nú er, en það teldum við vel farið. Eins og kunnugt er, hefir töluvert verið gert að því að ala á tortryggni í garð æsta dómstóls þjóðarinnar nú á seinni árum. Það hefir jafnvel gengið svo langt, að vissir stjórnmálamenn hafa ekki virzt hafa önnur áhugamál meiri en ala á þessari tortryggni. Með þessari opinberu grg. dómendanna myndi þessum rógberum vera gert erfiðara fyrir.

Annað atriðið, sem um er deilt, er hið svonefnda dómarapróf og skipun varadómara. Hvorttveggja þetta snertir þann grundvöll, sem við sjálfstæðismenn viljum, að sé grundvöllurinn fyrir æðsta dómstóli landsins. Við viljum forða dómsvaldinu, eftir því sem frekast er unnt, úr höndum framkvæmdavaldsins. Eins og kunnugt er, þá greinist ríkisvaldið samkv. stjskr. í þrennt: Löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald, sem hún segir, að eigi að vera hjá dómendum.

Í jafnlitlu þjóðfélagi sem okkar, þar sem flokkadeilur eru líka mjög miklar, verður að leggja mikla áherzlu á að hafa sem greinilegust og gleggst mörk á milli framkvæmdavalds og dómsvalds. Það er því ekki við því að búast, að við, sem fylgjum þessari skoðun fram, getum sætt okkur við till. hv. meiri hl. allshn. í þessu efni, þar sem þær miða beinlínis að því að gera æðsta dómstól þjóðarinnar háðan framkvæmdavaldinu á hverjum tíma. Um það verður ekki með rökum deilt, að það sé hin fyllsta nauðsyn, að æðsti dómstóll þjóðarinnar hafi sem mest sjálfsforræði í öllum dómsmálum. Það geta því allir séð, hve skaðleg áhrif það getur haft á þá friðhelgi, sem á að vera yfir hæstarétti, ef harðvítugur pólitískur ráðh. á að fá að ráða um dómendurna í mörgum tilfellum. Við minnihlutamenn erum með því að færa út þann hring, sem taka má úr menn í réttinn, en varadómendurna teljum við sjálfsagt að taka úr lagadeild Háskóla Íslands.

Hv. 8. landsk. talaði langt mál og snjallt fyrir brtt. okkar, og skal ég því ekki ræða þær mikið nú, en aðeins vekja athygli á því, að það séu fastir varadómarar, sem taki sæti í öllum hinum vandasömustu málum, sem fyrir réttinn koma. Við teljum það til að auka réttaröryggi í landinu, að 3 menn dæmi, í stað 3, í öllum hinum meiri háttar málum. Að sjálfsögðu hefðum við helzt kosið að bera fram brtt. um það, að rétturinn skyldi jafnan skipaður 5 mönnum, en sakir þess, hvernig fjárhag ríkissjóðs er nú komið, sáum við okkur það ekki fært.

Hv. þm. Barð. gat þess, að sumar brtt. okkar væru ekki ágreiningsmál. Þannig vildi hann telja 4., 5., 6. og 7. brtt. leiðréttingar á frv., sem allir gætu fallizt á. Hvað snertir 8. brtt. á þskj. 185, þá verð ég að leggja áherzlu á, að hún nái fram að ganga, því að það er vitanlega mjög æskilegt, að breyt. sú á hæstarétti, sem af samþykkt frv. leiðir, komi til framkvæmda á sem hentugustum tíma, en það teldi ég vera að hausti, t. d. 1. sept., þegar réttarfríið er afstaðið. Að láta lögin öðlast gildi þegar í stað, svo þau kæmu til framkvæmda nú innan skamms, teldi ég misráðið. Annars verð ég að segja það um ræðu hv. þm. Barð., að mér fundust rökin lítil í henni. Geymi ég mér því að svara honum þar til ég heyri aðra rökfastari og skýrari ræðu frá honum.