30.03.1935
Efri deild: 38. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1024 í B-deild Alþingistíðinda. (1455)

75. mál, hæstiréttur

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Ég er hræddur um, að hv. 1. þm. Skagf. hafi eitthvað vonda samvizku, fyrst hann vildi ekki láta till. sína koma undir atkv. til afbrigða. Ég hreyfði þessu af því mér heyrðist vera hálfgerðar erjur í hv. þm., en ég skal gleðja hann með því, að hann þurfti ekkert að óttast að því er mitt atkv. snerti, því ég ætlaði að greiða atkv. með afbrigðum, þó ég hefði ekki greitt atkv. með sjálfri till.

Þetta hæstaréttarmál hefir verið oft á dagskrá á undanförnum þingum, og hefir verið lagt á það mikið kapp af sjálfstæðismönnum að halda í það fyrirkomulag, sem verið hefir, þó nú sé það orðið úrelt. Sérstaklega að þeir menn, sem búnir eru að vera lengi í dóminum, geti alltaf útnefnt sína eftirmenn. En það er ekki í samræmi við stjórnarhætti þessara tíma. Það er því aðaldeiluefnið, hvað sjálfstæðismenn halda fast við þetta atriði, að dómurinn fái alltaf sjálfur að velja alla þá, sem í hann eiga að setjast sem dómarar. Ég hefi áður sagt, að ég treysti ekki hæstarétti þeim, sem nú situr, eða meiri hl. hans til þess að vera óhlutdrægur og þykir mér því betra, að pólitískur ráðh. útnefni dómara, því hann er þó hægt að draga til ábyrgðar, en dómarar í hæstarétti eru hafnir yfir allt slíkt. Alþ. nær ekki til þeirra, og þó verið sé að kritisera störf þeirra í blöðunum, eiga þau á hættu, að sá sami réttur loki fyrir munninn á þeim með sektum.

Þá er atriðið um fjölgun dómaranna, sem bráðlega þyrfti að koma í framkvæmd. Þegar breytingin var gerð um fækkun dómaranna á þingi 1922, greiddi ég atkv. með því með samvizkunnar mótmælum og aðeins í því trausti, að ofurlítið létti yfir réttinum, ef mestu steingervingarnir færu, en því miður hefir hann ekki breytzt mikið, og breytingin ekki svarað til þess, sem menn gerðu sér vonir um. Ég álít að það sé aðeins sparnaðarráðstöfun að fækka dómurunum, og ætti því að fjölga þeim í 5 svo fljótt sem hægt er.

Ég fæ ekki skilið það, sem hv. 1. þm. Skagf. var að benda á, að það sé hægt að hringla með dómaraembættin eins og hverjum sýnist. Ef konungur er einu sinni búinn að skipa í þau, verður fjárveitingavaldið að áætla fé til þeirra.

Og ég álít, að bráðlega verði horfið að því að fjölga dómurum í 5. Bæði er rétturinn sterkari þannig skipaður, og fjöldi mála að verða svo mikill, að ekki veitir af góðum starfskröftum til þess að setja sig svo vel inn í þau, að dómar geti orðið öruggir.

Ég skil ákaflega vel, að Sjálfstfl. sé ekki ánægður. Ég minnist ekki að hafa séð sjálfstæðismenn glaðari, og einnig hálfbræður þeirra nasistana, en þegar Jón í Stóradal felldi með þeim frv. um hæstarétt.

Ég skildi þá bezt, hvert geysikapp þeir leggja á að halda í það steingerða fyrirkomulag, sem nú er. Þó ég hefði helzt kosið 5 dómara strax, mun ég greiða atkv. með frv. óbreyttu eins og það kom frá Nd., svo að það geti orðið sem fyrst að lögum.

Ég hefi í mörg ár talið mikla þörf á því að breyta hæstarétti, og sérstaklega því ákvæðinu, sem hv. 1. þm. Skagf. heldur fastast í, að rétturinn geti endurnýjað sig á þann hátt, að dómararnir velji alltaf sína eftirmenn. Þá er betra, að pólitískur ráðh. skipi dómarana, því til hans næst bæði á þingi og í blöðum, og er hægt að láta hann svara til saka.

Ég þarf ekki að svara aths. hv. 1. þm. Skagf. um formgalla á frv., því þær virðast ekki hafa við mikið að styðjast. Enda hafa þeir þar um fjallað, er vel kunna að búa frv. formlega úr garði. Ég vil halda því fram með fullum rétti, að við, sem erum aðeins leikmenn — en ekki juristar —, getum vel verið dómbærir um, hvernig æðsti dómstóll þjóðarinnar skuli skipaður.

En lagavitið er gott, þegar um lögfræðileg atriði er að ræða, þó hv. 1. þm. Skagf. hafi verið dómari og því fengið nokkra reynslu, þurfum við ekki að vera himinfallnir yfir öllu, sem hann segir, því honum getur skjátlazt eins og öðrum.