03.04.1935
Efri deild: 41. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í B-deild Alþingistíðinda. (1468)

75. mál, hæstiréttur

Magnús Jónsson [frh.]:

Það er orðið svo langt síðan ræðan var flutt, sem ég var að svara með ræðu minni í gær, að ég get að mestu fallið frá því, sem ég ætlaði að segja. Ég ætla þó að minna á umr. hv. þm. S.-Þ., er hann hóf um kollumálið, eða lagði út af í löngum kapítula. Mér virtist röksemdafærsla hans, ef nokkur brú var í henni, vera á þessa leið: Í fyrsta lagi var engin æðarkolla til, í öðru lagi skaut Hermann Jónasson aldrei neina æðarkollu, og í þriðja lagi var það óvart, að hann skaut hana. Það er auðvitað ekki til neins að vera að ræða mál, þegar þau eru tekin á þennan máta.

Hv. þm. talaði mikið um vitnaframburðinn. Mér finnst, að hann ætti ekki að vera að rifja það mál of mikið upp. Það hafa farið svo orð af ýmsum vitnaleiðslunum, sem hann sjálfur átti þátt í, að honum kæmi bezt að rifja það ekki upp eða vera neitt að nefna það. En manni virtist sönnunin fyrir því, að æðarkollan hefði aldrei verið til, vera sú hjá hv. þm., að sumir hefðu sagt, að hún væri á sjó, aðrir, að þeir hafi séð hana á landi, sumir hafi séð hana blóðuga, aðrir stirðnaða. Mörgum hefði nú orðið fyrir að draga þær ályktanir af öllu þessu, að æðarkollan hafi ekki verið ein, heldur hafi þær verið margar. Ef ég hefi séð mann skjóta æðarkollu á landi og annan á sjó, þá er auðvelt að draga þær ályktanir, að það hafi verið kolla á sjó og kolla á landi.

Ég fer ekki lengra út í þetta, en þó verð ég að minnast á eitt atriði, sem hv. þm. S.-Þ. taldi sönnun fyrir því, að maður hefði verið hafður fyrir rangri sök í máli. Og sönnunin var sú, að sami maður hefði nokkru síðar verið kosinn þm. í einu kjördæmi á Íslandi. Mér skildist hann hefði verið kosinn fyrir kollumálið. Og það var helzt að heyra, að sami maður hefði líka orðið forsrh. fyrir það, og ekki haft annað sér til ágætis en hafa verið hafður fyrir rangri sök. Hans einu kostir hefðu verið að vera borinn þessari sök. Aðalástæðurnar til þess, að hann varð bæði þm. og forsrh., urðu því þær, að hann skaut kolluna. En ef hér er fólgin einhver sönnun fyrir því, að málsstaður mótstöðumanna hv. ráðh. hafi verið vondur í þessu máli, þá hefir hv. þm. S.-Þ. sannað fleira en hann ætlaði sér að sanna.

Hv. þm. man kannske, að rétt áður en hann vék úr ráðherrasessi höfðaði hann sakamálarannsókn gegn hv. l. þm. Skagf., og núv. forsrh. dæmdi síðan í því máli óþægilega frægan dóm. Og hvernig varð svo reynslusönnunin í þessu máli? Tveim eða þrem dögum eftir að hv. þm. S.-Þ. skipaði sakamálarannsóknina, var Magnús Guðmundsson kosinn þm. í Skagafjarðarsýslu með miklu meira atkvæðamagni en áður.

Ef hv. þm. S.-Þ. hefir sannað sakleysi Hermanns Jónassonar í kollumálinu með því, að hann var kosinn á þing, þá hefir hann um leið sannað sakleysi Magnúsar Guðmundssonar. Það þýðir ekki að koma með rök, sem eiga bara að gilda í einu tilfelli, en ekki öðrum. Ég legg engan dóm á, hvers virði svona rök eru, en þau ættu að gilda jafnt fyrir alla. — Svo vil ég ekki orðlengja þetta frekar, né þreyta lengur málið.