05.11.1935
Efri deild: 61. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í B-deild Alþingistíðinda. (1637)

119. mál, kjötmat o.fl.

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Ég vil taka undir þau orð hjá hv. frsm. minni hl., að mér þykir einkennilegt, að þessi breyt. skyldi vera flutt aðeins tveim árum eftir að kjötmatsl. voru endurskoðuð. Sú endurskoðun hafði verið sérstaklega undirbúin, þar sem skipuð var n. með fulltrúum frá Samb. ísl. samvinnufél. og dýralækni, sem hafði aðallega borið kjötmatið uppi. N. var á einu máli um, að sú breyt. væri æskileg, sem þá var gerð, og að það skyldi vera einn yfirkjötmatsformaður, en svo væru þrír aðrir kjötmatsmenn, sem að vísu bæru ekki annað nafn en aðstoðarkjötmatsmenn, en sem í raun og veru væru yfirkjötmatsmenn. Eins og tekið var fram áðan, var þetta fyrirkomulag tekið upp í fiskimatsl. og hét yfirmaðurinn þar matsstjóri. Það þótti mjög vænlegt til endurbóta að búa þarna til nýtt embætti, þó að af því leiddi kostnað, því að sá kostnaður myndi í raun og veru fást endurgreiddur með hærra verði á fiskinum, sem leiddi af því, að þetta fyrirkomulag veitti meira öryggi. Um framkvæmd fiskimatsins er alveg hið sama að segja og um kjötmatið, að það skapar meira öryggi og samræmi í matið, að einn sé yfirmaður og svo séu aðrir honum til aðstoðar. Hvort þeir heita yfirmatsmenn eða aðstoðarmenn, það skiptir ekki máli. Þar sem síðasta þing var á einu máli um, að þetta fyrirkomulag væri nauðsynlegt að því er fiskimatið snertir, kemur þetta mál, sem hér er á ferðinni, einkennilega fyrir sjónir. Og hvað því viðvíkur, að kjötmatsformaður hafi ekki enn getað komið á alla staði síðan matið kom til framkvæmda, álít ég ekki gera neitt til, þótt hann hafi ekki getað komið á hvern smáfjörð eða höfn enn þá, og að það sanni ekki það, sem það átti að sanna hjá meiri hlutanum. — Ég lít svo á, að þessi breyt. sé óþörf, og mér finnst alleinkennilegt, að þeir, sem voru einhuga og töldu æskilegt að samþ. kjötmatsl. 1933, skuli telja það nauðsyn nú, tveim árum síðar, að hverfa aftur til hins úrelta skipulags.