29.03.1935
Neðri deild: 40. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (1790)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Sigurður Kristjánsson:

Ég vil byrja á því að minna hv. þm. á það, að hér hefir verið rætt allmikið um 3 frv. í viðbót við þetta, sem fjalla um nýja tekjustofna fyrir bæjarfélög. Og þau hafa mætt mikilli mótstöðu, sérstaklega hjá andstöðuflokkum sjálfstæðismanna. Sú andstaða skilst mér hafa byggzt á því, að þetta gjald, sem ætlað er að leggja á í Vestmannaeyjum, Akureyri og Siglufirði, komi ekki eins réttlátlega niður eins og að jafna því niður eftir efnum og ástæðum. Nú held ég að allir viðurkenni samt, að það er komið svo í kaupstöðum landsins, að þeir geta ekki fengið tekjur fyrir nauðsynlegum útgjöldum, nema finna einhverja sérstaka og helzt nýja tekjustofna. Flm. þessara frv. hafa held ég allir viðurkennt það, að þessi leit að nýjum tekjustofnum væri ekki búin að bera viðunanlegan árangur ennþá, og því væri aðeins farið fram á þessa skatta til bráðabirgða. N., sem hafa haft þessi mál til meðferðar, hafa yfirleitt lagt til, að þessi skattgreiðsla yrði heimiluð til eins árs í senn.

Nú kemur hér fram frv. um nýja tekjustofna fyrir Ísafjarðarkaupstað. Og það er ætlazt til — að mér skilst — að það sé ævarandi skattur, þykir mér undarlegt, að sömu menn, sem mótmælt hafa nýjum tekjustofnum hjá öðrum kaupstöðum, geti risið upp og verið þessu mjög fylgjandi, sem er auk þess alveg óvenjulegt gjald, eins og hv. 3. þm. Reykv. (JakM ) benti á. Því verður ekki mótmælt um fasteignagjaldið, að það er ætlazt til, að það gjald verði tekið eftir því, sem hverri bæjarstj. á hverjum tíma þóknast að ákveða það. Það þýðir ekkert fyrir hv. 1. landsk. (StJSt) að ætla sér að þvæla sig frá því. Hann sagði hér áðan, að sama röksemdafærslan hefði komið frá mér áðan eins og frá hv. 5. þm. Reykv. og þyrfti ekki að svara því, af því að því hefði verið svarað við 2. umr. Það er satt, að það komu ýmsar sömu röksemdafærslur hjá mér. En það er missögn, að því hafi verið svarað. Þegar talað er um að svara einhverju í þessu sambandi, þá á maður við, að því sé hnekkt. En það er einmitt það, sem ekki hefir verið gert. Það hefir ekki komið fram eitt einasta orð, hvorki frá hv. 1. landsk. né öðrum, sem hnekkti þessum rökum, að það sé óeðlilegt, að bæjarstj. fái rétt til þess samkv. l. að leggja á menn fasteignagjald mismunandi frá ári til árs og mismunandi bara eftir sínum eigin geðþótta. Hv. 1. landsk. sagði, að þetta væri nokkuð vel tryggt fyrir öfgum, þar sem hér væri um mjög þröngan ramma að ræða. Ramminn er ekki þrengri en það, að gjaldið getur verið tífalt hærra tiltölulega á einum heldur en öðrum. Það er frá 0.1 og upp í 1%. Ég vil spyrja hv. þm., hvort honum fyndist sér lítið við komandi, ef skattur hans væri margfaldaður með 10. Það er einmitt það, sem má gera ráð fyrir hér. Ég held bara, að þessi ummæli sýni það, að hv. þm. hefir ekki hugmynd um það, hvaða málstaður það er, sem hann er að verja.

Þá sagði þm., að það væri mikið öryggi fyrir því, að þetta væri ekki hægt að misnota. Öryggið var það, að ríkisstj. þyrfti í hvert skipti að staðfesta reglugerðarbreyt. Ég veit nú ekki, hvað þessi hv. þm. hefir reynt ríkisstjórnir að í skattamálum. Ég vil benda á eitt dæmi, sem mér er persónulega kunnugt, til sönnunar því, að þetta öryggi getur verið mjög svo afsleppt. Pólitísk sveitarstj. lagði útsvar á mann ekki fyrir mörgum árum, 5600 kr. Maðurinn hafði orðið fyrir miklu óhappi, hafði tapað stórfé og var um það bil að uppgefast á sínum atvinnurekstri. Hann kærði þetta útsvar og átti þá málið samkv. þágildandi reglum að fara til sveitarstj. aftur. Sveitarstj., sem var pólitísk, vildi sýna, að hann skyldi ekki hafa gott af því að steyta sig framan í yfirvöldin og hækkaði útsvarið um 1 þús. kr. Hann kærði til skattanefndar. Í henni voru tveir af þremur andstæðingar hans. En menn voru á einu máli um það, að útsvarið næði ekki nokkurri átt og lækkuðu það um helming. Pólitískur smali þáv. ríkisstj. var í þessari sælu hreppsnefnd, og hann kærði þetta áfram til ríkisstj., — það átti nefnilega að vera síðasta öryggið á þeim tíma — og óskaði, að útsvarið yrði hækkað aftur í topp. viðkomandi ráðh. sendi tilkynningu eitthvað á þá leið: Rétt þykir, að útsvarið sé eins og það upphaflega var, 6600 kr. En það var nú upphaflega kr. 5500. En ráðh. hafði ekki haft það fyrir, að hann læsi skjölin. Hann vissi bara það eitt, að pólitískur smali vildi láta refsa pólitískum andstæðing, og þá var öryggið ekki meira en þetta hjá ríkisstj., að ráðh. leit ekki einu sinni á skjöl málsins. Ég segi ekki, að svona endemi geti alltaf endurtekið sig, en þetta var öryggið á þessum tíma, og þetta getur það orðið enn. Þess vegna segi ég: Það er betra að hafa sitt öryggi í sjálfum á Þetta er alveg einstakt, að ætla að fara með l. að heimila pólitískum bæjar- og hreppsstjórnum að leggja misjafnlega há fasteignagjöld á, eftir þeim mælikvarða, sem hverjum þóknast að búa til. Þetta er einsdæmi, eins og hv. 3. þm. Reykv. sagði. Og það er illt einsdæmi. Ég skal í þessu sambandi endurtaka það, sem ég sagði við 2. umr., að mér fyndist ekki nema eðlilegt og full þörf á því, að breytt væri l. um lóðaskatt á Ísafirði, því að hann er lagður á eftir allt öðrum mælikvarða en vera á og samkv. mjög gömlum ákvæðum. Það er lagt á ettir flatarmáli lóðanna og er aðeins í 2 stigum, byggðar og óbyggðar lóðir, en ekki eftir því, hvort lóð er verðmæt eða óverðmæt að öðru leyti. Þessu er sjálfsagt að breyta og leggja hundraðsgjald á lóðir, og má vel vera, að lóðagjöld mætti eitthvað hækka.

Sömuleiðis finnst mér ekki ósennilegt, að Ísafjörður geti, eftir að hann er nú búinn að leggja mikið fé í að bæta vatnsleiðsluna, sett á nýjan vatnsskatt. Hitt nær engri átt, að heimila yfir höfuð pólitískum sveitar- og bæjarstj. að leggja á menn fasteignagjald bara eftir mælikvarða, sem þær búa til í það og það skiptið. Og þetta frv. verður ekki skilið öðruvísi af mér en að það eigi að opna leið til þess að geta sýnt einum umbun og öðrum minni umbun, eða jafnvel refsingu, enda blátt áfram gefið í skyn í frv., að það eigi að mismuna mönnum.

Ég geri nú ráð fyrir því, að svona mælikvarði sé kannske ekki mikill þyrnir í augum þm. úr hópi sósíalista í deildinni. En ég vil draga fram annað atriði, sem snertir mjög mikið kjósendur um land allt, ef sú stefna færist yfir. Það er uppskipunargjaldið. Uppskipun ætlar bærinn að gera sér að féþúfu. Það er tiltekið í frv., að hámark eigi að vera á þessu. Það er meðaltal af uppskipun þriggja síðustu ára. En þau hafa haldizt geysihá, uppskipunargjöldin á Ísafirði. Að vísu ekki hærri en þau voru áður en bæjarstj. tók þau í sínar hendur fyrir 12—13 árum, eins og flm. tók fram. En það er aðgæzluvert, að kaupgjald var þá kringum helmingi hærra en nú. Samt haldast uppskipunargjöldin. Einnig fólst áður í uppskipunargjaldinu bæði bryggjugjald og vörugjald; en nú eru þetta þrenn gjöld, svo að kostnaður hefir aukizt á vörunum. En svo eru opnar dyr til þess að hækka þessi gjöld. Það er sem sé ekki nóg að flytja vörurnar í land, það þarf að koma þeim undir þak og geyma þær. Þarna liggur stórt hérað að, og þykir ekki öruggt að sigla þar á smáhafnir, nema kannske um hásumarið. Og yfirleitt er ekki meira þéttbýli en svo, að erfitt er að fá heila farma, og þar af leiðandi verður að fá vöruslatta. Héraðsbúar verða að fá vöru sína geymda á Ísafirði, einkanlega þeir, sem búa langt frá. Er þá miðað við einn eða tvo daga, svo getur komið vikugjald á voruna og mánaðargjald. Úr þessu getur orðið þungbær skattur á menn í héraðinu. Ég vil í þessu sambandi minna á það, að öll þungavara er háð vörugjaldi, sem héraðsmenn verða að greiða auk uppskipunargjalds, þeir sem utan bæjarins búa. Ef þeir láta sinn fisk um Ísafjörð, verða þeir að borga 1 kr. af hverju skpd. í vörugjald og 1 kr. á hvert salttonn og kolatonn. Og ofan á þetta á svo að taxta uppskipunargjaldi. En sannleikurinn er sá, að utanhéraðsmenn hafa fengið þessa uppskipun miklu ódýrari. Menn hafa tekið sjálfir upp kolafarma og saltfarma, og geta gert það fyrir miklu minna verð en líklegt er, að kaupstaðurinn setji á það verk, þegar hann ætlar að gera sér það að féþúfu.

Menn verða þess vegna að gera sér það alveg ljóst, að með því að samþ. frv. eru þeir að samþ. þungbæran skatt til Ísafjarðarkaupstaðar á menn, sem búa umhverfis í héraðinu. Þetta er í eðli sínu ákaflega ósanngjarnt, og því ósanngjarnara, þegar bæjarstj. hefir ákaflega rúmt um hendur að ákveða þetta gjald.

Ég vil sérstaklega leggja áherzlu á þetta, af því að búast má við, að víðsvegar á landinu verði þetta atriði tekið til athugunar. Því að það er bara eins árs svipað fyrirkomulag, sem farið er fram á í öðrum kaupstöðum, — bara til bráðabirgða, meðan myndaðir eru réttlátari gjaldstofnar. En þetta eins árs ástand hefir nú verið mikill þyrnir í augum manna, og ég ætla sérstaklega hv. framsóknarmanna, sem er eðlilegt, af því að þeir munn telja, að þeir eigi samkv. sínum fyrri ummælum að bera sérstaklega fyrir brjósti hag þeirra manna, sem eru utan kaupstaða.

Ég hefi náttúrlega ekki ástæðu til að fara út fyrir það, sem frv. sjálft nær. En af því að hér er verið að veita sveitarstjórnum ákaflega rúma heimild til þess að skattleggja ekki aðeins sína eigin borgara mismunandi eftir geðþótta, heldur einnig borgara annara sveitarfélaga, þá hlýt ég að rökstyðja mín mótmæli með fleiru. Og ég ætla að taka dæmi af því, hvernig gjöld þau eru, sem bæjarstj. Ísafjarðar sumpart hefir orðið að leggja á gjaldendur og sumpart hefir þóknazt að gera það, án þess það sýnilega styðjist við nokkur réttindi. Það er vitað, að kaupstaðurinn hefir búið sér til skattstofn annan en þennan. Það er hið svonefnda umsetningargjald, sem lagt er á þá menn, sem reka einhverskonar „forretningu“. Þetta umsetningargjald hefir gilt á Ísafirði langan tíma; hefir líka verið lagt á í Reykjavík og víðar. Þykir það mismunandi sanngjarnt, og auðvitað þykir á því sá höfuðgalli, að það er niðurjöfnunarnefnd sjálf, sem skapar reglur fyrir því eftir eigin geðþótta, og engin l. geta á neinn máta verið mælikvarði hennar fyrir þessari skattgreiðslu. Ég skal nefna eitt dæmi, sem sýnir skattálagningarfrekjuna á Ísafirði. Hér í Reykjavík veit ég ekki betur en þetta umsetningargjald sé á timbur 3 á þúsund. Hvað halda hv. þm. að það sé á Ísafirði? Það er 60 á þúsund eða 6%. Ég gat ekki hugsað mér áður en ég vissi það, að svona frekja gæti átt sér stað. En þetta er sannað mál og hefir komið fyrir ríkisskattanefnd, og henni mun hafa blöskrað. En þetta er bending um það, að ekki sé alveg víst þegar svona bæjarstj. er opnuð leið til þess að skattleggja borgarana eftir geðþótta, og það jafnvel borgara annara sveitarfélaga, að það er ekki alveg víst, að ausunni yrði dýpt mjög lempilega í. Ég held þess vegna, að það sé ekki um skör fram, þótt ég alvarlega veki athygli allra hv. þm. — í hvaða flokki sem þeir eru — á því, að þeir eru að fremja mjög ábyrgðarmikið verk, ef þeir opna sveitar- og bæjarstjórnum leið til slíkra skattálagninga.